Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

MAST setur Ópal í lægsta gæðaflokkinn

26.04.2019 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Ópal sjávarfang - Facebook
Matvælaframleiðandinn Ópal sjávarfang brást ekki við alvarlegum athugasemdum Matvælastofnunar vegna listeríusmits í fiski fyrr en nokkrum dögum síðar. Fyrirtækið er nú undir ströngu eftirliti MAST og þarf að senda öll sýni í greiningu áður en vörur fara á markað. Ópal hefur fallið úr gæðaflokki A niður í C hjá Matvælastofnun, en 9 prósent matvælafyrirtækja landsins eru í þeim flokki.

Lést eftir listeríusmit úr laxi um jólin

Kona á fimmtugsaldri, með undirliggjandi ónæmisbælingu, lést í janúar af völdum listeríusýkingar eftir að hafa borðað reyktan og grafinn lax frá Ópal sjávarfangi um jólin. Matvælastofnun barst erindi frá Landlækni um leið og fóru eftirlitsmenn MAST á starfsstöð Ópal og tóku 13 sýni úr graflaxi, birkireyktum laxi og birkireyktri fjallableikju. Listería greindist í öllum sýnum, en langmest í graflaxinum. Hún fannst einnig á skurðarbretti, grindum, í niðurfalli og á skurðarborði í pökkunarsal. Þetta kemur fram í skoðunarskýrslu MAST, dagsettri 25. janúar. Þess utan voru alls níu frávik í vinnslunni, varðandi aðbúnað, meindýravarnir, umbúðir og neytendavernd. 

Níu prósent fyrirtækja í lægsta gæðaflokknum   

Í nær vikulegum eftirlitsskýrslum MAST vegna Ópals síðan í janúar koma fram ítrekuð frávik, mest 16 í einni skoðun, og tvö alvarleg, þar sem Ópal hafði ekki sinnt fyrirskipun um innköllun listeríusmitaðra matvara. Ópal var í gæðaflokki A hjá MAST, en hefur nú fallið niður í C, sem er lægsti flokkurinn. Í lok síðasta árs voru 49 prósent matvælafyrirtækja í landinu í gæðaflokki A, 42 prósent í B og níu prósent í C. Fyrirtæki í C flokki eru undir margfallt strangara eftirliti en þau sem eru í A flokki, en Ópal þarf að senda sýni úr allri framleiðslu sinni til MAST áður en vörur fara á markað. Samkvæmt upplýsingum þaðan hafa ekki greinst nein listeríusmit í vörum fyrirtækisins síðan sú skoðun hófst. 

Ópal brást ekki við ítrekuðum fyrirskipunum MAST

MBL birti í gær tölvupóstssamskipti MAST og Birgis Sævars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Ópals. Fréttastofa er með umrædd samskipti, sem hefjast um hádegisbil 4. febrúar með pósti MAST til Birgis þar sem greint er frá niðurstöðum og að stöðva þurfi dreifingu á vörunum, innkalla þær af markaði og að málið sé svo alvarlegt að það krefjist tafarlausra viðbragða með því að stöðva dreifingu, taka vörur af markaði og innkalla frá neytendum. 

Birgir svarar nokkrum tímum seinna og segir niðurstöðurnar koma sér í opna skjöldu, en dreifing verði stöðvuð og vinnsla verði í lágmarki á meðan málið sé skoðað.

Segir MAST hafa skapað einkennilegar kringumstæður

Þá segir hann listeríumagnið í graflaxinum alvarlegt mál, en það alvarlegasta sé kannski að þegar MAST tók sýnin hafði enginn undirbúningur átt sér stað og allir starfsmenn vinnslunnar stressaðir. Þá segist hann sjálfur hafa sett rangar dagsetningar á öll sýnin sem MAST tók, vegna þessarra einkennilegru kringumstæða, eins og hann orðar það. MAST hafnar beiðninni og ítrekar á ný.

Daginn eftir, 5. febrúar, var stöðvun vinnslu, dreifingar og framleiðslu á graflaxi, reyktum laxi og fjallableikju boðuð þá um kvöldið. Ópal nýtti andmælarétt sinn og sendi inn erindi þess efnis, en á meðan verið var að yfirfara það barst svo tilkynning frá fyrirtækinu um að ákveðið hafi verið að innkalla graflaxinn, sem var gert 6. febrúar, tveimur dögum eftir að niðurstöður lágu fyrir.  

Listería í lax og bleikju

11. febrúar skráði MAST í þriðju eftirlitsferðinni 16 frávik og tvö alvarleg frávik. Þar vóg þyngst að Ópal hafði ekki sinnt fyrirskipun MAST um innköllun á vörunum sem höfðu greinst með listeríu, graflax og reyktur lax. Fram kemur í skýrslunni að starfsmaður Nettó hafi sjálfur fjarlægt vöruna úr búðinni. Þremur dögum síðar,  14. febrúar, voru allar reyktar afurðir Ópals innkallaðar. 

Ópal segist hafa brugðist strax við

Í tilkynningu frá Ópal í  gær kom fram að fyrirtækið hefði brugðist strax við þegar niðurstöður lágu fyrir. Þar segir reyndar einnig að fyrirtækið sé í A flokki hjá MAST. „Sem er hæðsti gæðastuðull sem fyrirtæki í matvælaframleiðslu getur fengið. Til að fá þann stimpil þarf að gæta ítrasta hreinlætis við framleiðslu sem hefur ávallt verið í forgangi hjá Ópal sjávarfangi.” Eins og áður segir, er það nú fallið niður í C flokk, sem er lægsti gæðastuðullinn. 

Ekki náðist í framkvæmdastjóra Ópal í morgun.