Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Markmiðið að sverta mannorð Omos

Mynd með færslu
 Mynd:
Markmiðið með því að leka minnisblaði úr innanríkisráðuneytinu um málefni hælisleitandans Tony Omos til fjölmiðla virðist hafa verið að sverta mannorð hans vegna yfirvofandi mótmæla við ráðuneytið. Þau voru boðuð vegna þess hvernig hafði verið haldið á afgreiðslu á máli hans.

Þessu hélt saksóknari Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í síðasta mánuði. Þá krafðist hann þess að fréttastjóri mbl.is upplýsti um hver hefði ritað frétt um hælisleitandann og hvort og þá hvernig vefurinn hefði komist yfir óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins. Hvort tveggja Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafnaði beiðni lögreglunnar um að fréttastjórinn yrði skyldaður til að svara spurningum sem hann taldi sig ekki geta svarað vegna verndar heimildarmanns. Dómur Hæstaréttar var birtur í dag og þar fást ýmsar upplýsingar um gang málsins.

Minnisblað tekið saman vegna boðaðara mótmæla
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur segir meðal annars að minnisblaðið hafi verið tekið saman af lögfræðingi í innanríkisráðuneytinu að beiðni skrifstofustjóra vegna fyrirhugaðra mótmæla. Í því sé fjallað um um tengsl mannsins við tvær konur, aðra íslenska og hina hælisleitanda. Einnig komi þar fram að sú síðarnefnda sé ófrísk og Omos mögulega faðir barnsins. Þá sé þar sagt að hann hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Þá sé því borið við í hælismáli konunnar að hún sé fórnarlamb mansals. Í niðurstöðu dómsins segir ekkert um að tengsl séu þar á milli.

Ekki innlegg í opinbera umræðu
Saksóknari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vildi að fréttastjóri mbl.is upplýsti um hver hefði látið fjölmiðlinum minnisblaðið í té. Hann sagði hagsmuni brotaþola í málinu af því að njóta friðhelgi einkalífs síns, og að upplýsa hver hefði brotið gegn þeim rétti, vega þyngra en hagsmuni fjölmiðils af því að fá að birta persónulegar upplýsingar um þá. Í framhaldi af því sagði saksóknari að upplýsingarnar sem fram kæmu í minnisblaðinu ættu ekki erindi við almenning og þær hafi ekki haft þýðingu sem innlegg í almenna umræðu um málefni flóttamanna. Þess í stað hafi markmiðið fremur verið að sverta mannorð mannsins vegna yfirvofandi mótmæla.

[email protected]/[email protected]