Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markmiðið að enginn þurfi að bíða lengi í kerfinu

03.02.2020 - 16:52
Mynd: RÚV / RÚV
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að markmiðið sé að enginn þurfi að bíða í kerfinu eins lengi og fjölskylda Muhammed sem átti að vísa úr landi í gær, 26 mánuðum eftir að hún kom til landsins. Hún var spurð út í málið í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Íslensk stjórnvöld ákváðu um helgina að vísa ekki pakistanska drengnum Muhammed og fjölskyldu hans af landi brott í dag, líkt og til stóð. 17 þúsund undirskriftir söfnuðust þar sem þess er krafist að fjölskyldan fengi að vera á Íslandi. 

Dómsmálaráðherra áformar að stytta hámarkstíma málsmeðferðar úr átján mánuðum í sextán í hælismálum þar sem börn eiga í hlut. 

Þingmannanefnd um málefni útlendinga fundaði fyrir helgi um stöðu barna og fólks í viðkvæmri stöðu og hefur dómsmálaráðherra falið nefndinni að fylgja þeirri vinnu áfram eftir. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hóf óundirbúinn fyrirspurnartíma með því að velta upp þeirri spurningu hvort nokkuð hefði verið gert hefði þjóðin ekki tekið málið í eigin hendur. 

„Ítrekað hefur nefnilega fólkið í landinu þurft að bjarga einstaklingum í erfiðri stöðu með samtakamætti sínum. Það er ekki nóg að stjórnvöld grípi inn í gagnvart fólki sem er með gott tengslanet eða hreyfir við okkur á einhvern hátt,“ segir Logi. Breyta þurfi kerfi sem sé ósveigjanlegt og óréttlátt og margt sem hægt sé að gera. 

Logi sagði lítið hafa gerst í málefnum útlendinga annað en að fyrirrennari Áslaugar Örnu hefði lagt fram frumvarp sem skerti réttindi og kjör þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd. Hann spurði hvort það yrði sett til hliðar. 

Dómsmálaráðherra tók undir að tryggja þurfi jafnræði. Reynt hafi verið að búa þannig um hnútana að kærunefnd útlendingamála, sem komið hafi verið á fót til að bregðast við gagnrýni meðal annars frá flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og Rauða krossins, hafi heimildir til að fara yfir úrskurði Útlendingastofnunar, sé sjálfstæð og úrskurðir hennar séu endanlegir. Markvisst hafi verið unnið að því að stytta málsmeðferð til hagsbóta fyrir fólk sem sækir um. Mál fjölskyldunnar hafi verið afgreitt innan 18 mánaða frests, sem settur hafi verið, og hún hafi boðað að verði 16 mánuðir þegar börn eigi í hlut. 

Mat lagt á hvert mál

Áslaug segir að fólk sé ekki lengur sent úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til Grikklands, því hafi verið hætt árið 2010. Fólk sé sent þangað sem það hefur þegar fengið vernd, rétt eins og önnur Evrópuríki og Norðurlöndin. Einstaklingsbundið mat sé þó lagt á hvert og eitt mál og því hafi það gerst að þótt fólk hafi hlotið vernd annars staðar fái það samt efnismeðferð hér á landi. „Þannig viljum við að kerfið okkar virki og það er þannig í dag. Það er sjálfsagt að byggja það upp og þingmannanefndin hefur nú þegar, síðastliðinn föstudag, fjallað um málefni barna og ég óskaði eftir að sú vinna héldi áfram.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hrósaði dómsmálaráðherra fyrir að stíga mikilvæg skref í málaflokknum þótt þau hafi ekki verið nógu stór að hennar mati. Hún gagnrýndi Sjálfstæðisflokkinn fyrir að leggja ekki fram lausnir, heildarsýn og heildarbreytingar í þá átt að gera kerfið mannúðlegra. Hún sagðist taka undir með Rauða krossinum að ekki eigi aðeins að skoað fresti á málsmeðferð heldur heildardvalartíma fjölskyldna og einstaklinga.  

Áslaug segir að boðuð breyting varðandi málsmeðferðartíma barna í efnismeðferð snerti ekki aðeins eina fjölskyldu heldur nokkrar. Mikilvægt sé að fólk fái svar fyrr en nú og það sé sú heildarsýn sem hún hafi óskað eftir því að þverpólitíska þingmannanefndin taki til skoðunar. „Það var mín beiðni að sérstaklega yrði rætt allt kerfið okkar, frá byrjun þegar fólk kemur hér að brottvísun, málefnum barna og fólks í viðkvæmri stöðu. Ég hef óskað eftir því að þingmannanefndin haldi áfram með þetta og ræði það og greini.“

Leggur til að brottvísun verði með í tímaramma 

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði einnig út í málsmeðferðartímann. Fjölskylda Muhammed hafi verið hér á landi í 26 mánuði, þótt niðurstaða málsins hafi legið fyrir 17 mánuðum eftir að þau komu til landsins. Helgi Hrafn spurði ráðherra hvort hún sé opin fyrir því að tíminn sem taki að framkvæma brottvísun verði tekinn með inn í tímarammann sem ráðherra hafi boðað að verði styttur. 

Áslaug segir að tíminn fram að brottvísun sé í fæstum málum nokkrir mánuðir. Tíminn geti ráðist af meðal annars stöðu í móttökuríkinu og möguleikanum á að klára og framkvæma brottvísun héðan.  

Helgi Hrafn segir skipta máli að allir séu á sömu blaðsíðu. Hann segist ekki þekkja Muhammed litla en býst við því að það skipti hann litlu máli hvort biðin ráðist af því hvort vandinn í kerfinu sé hér eða í Pakistan. Börn festi hér rætur og því skipti máli að það sé inni í tímarammanum. Það hefði litlu breytt fyrir fjölskyldu hans hefði málið klárast á stjórnsýslustigi tveimur mánuðum fyrr.

 

Því spyr hann hvort tíminn sem líður að brottvísun verði tekinn inn í tímamörkin. 

Áslaug svaraði því til að tímalengdin væri ekki einvörðungu undir íslensku stjórnkerfi komin. Því væri mikilvægt að hafa góð samskipti við lönd sem væri verið að vísa fólki til. Markmiðið væri alltaf að enginn verði eins lengi í kerfinu og það mál sem rætt hefði verið um sýndi.  

„Ég er auðvitað opin fyrir öllum þeim breytingum sem eru til hagsbóta fyrir börn eins og ég sýni með þeirri reglugerðarbreytingu að hafa þetta 16 mánuði. En það er að sjálfsögðu markmið okkar að það sé enginn í kerfinu okkar eins lengi og það mál sýnir sem hefur verið til umræðu hér.“