Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Markmið að vopna allt að 260 lögreglumenn

28.11.2014 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra segir að þörfin á vopnaeign lögreglunnar hafi aukist vegna ógnarinnar sem stafi af samtökunum Íslamska ríkið. Langtíma markmiðið sé að hægt verði að vopna allt að 260 lögreglumenn.

Eftir að í ljós koma að borga þarf fyrir 250 hríðskotabyssur frá norska hernum hefur verið ákveðið að skila þeim til baka. Embætti ríkislögreglustjóra telur að eftir sem áður sé þörf á fleiri byssum. Viðbúnaðargeta almennu lögreglunnar sé óforsvaranleg þegar kemur að því að beita vopnum. Hugmyndin er að minnsta kosti 70  hríðskotabyssum verði dreift á lögreglustöðvar landsins segir Jón F. Bjatmarz yfirlögregluþjón hjá Ríkislögreglustjóra

."Hugsunin er að tvær hríðskotabyssur verði á hverri lögreglustöð og þær eru 35 talsins."

Samkvæmt reglugerð frá árinu 1999, sem ekki hefur verið gerð opinber, um vopnaburð og vopnanotkun lögreglu er það lögreglustjóranna í hverju umdæmi að ákveða við hvaða vopnum þeir taka. Þeim er líka í sjálfsvald sett hvort þeir komi byssunum fyrir í þar til gerðum hirslum í lögreglubílunum Jón segir að vopnin verði ekki neydd upp á þá að svo stöddu ef þeir leggist alfarið gegn því að taka við þeim.

"Ríkislögreglustjórin ákveður fjölda og tegund vopna hjá lögreglu. Í sjálfu sér gætum við bara sagt að þið eigið að hafa þessi vopn. Ég tel að til þess þurfi ekki að koma. Ég held að það sé vilji hjá lögreglustjórunum að þeir hafi fullnægjandi búnað og þjáfaðan mannskap."

Af þeim 250 hríðskotabyssum sem Landhelgisgæslan útvegaði átti lögreglan að fá 150 stykki. Enn er miðað við að kaupa 150 byssur ef til þess fæst fjárveiting. Hins vegar metur lögreglan það svo að þörfin sé talsvert meiri.

"Nú erum við að setja þetta fram sem þennan áfanga en við höfum áætlanir um að byggja upp viðbúnaðinn. Við gerum okkur grein fyrir því að við fáum ekki alltaf allt strax og eitthvað þarf að horfa á sem langtíma markmið. Í fyrri greinargerðum okkar höfum við metið það þannig að við þyrftum að geta vopnað allt að 260 lögreglumenn. En það er langtíma markmið."

-Það eru þá mun fleiri byssur en 150?

"Jú, en akkúrat hvenær að þessu kemur verður bara þróunin að leiða í ljós."

Jón metur það svo að frá því að byssukaup Landhelgisgæslunnar hafi þörfin fyrir vopn aukist. Hann bendir á að Ísland  standi frammi fyrir ógninni sem stafi af samtökunum Íslamska ríkinu. Öll Evrópulönd hafi þegar lýst því yfir að samtökin séu mesta ógnin sem þau glími við.

 "Það snýst kannski ekki endilega um það að hingað kæmu einhverjir hryðjuverkamenn. Það er þannig að IS hefur náð miklum árangri með að nota vefinn til áróðurs og safna áhangandum. Þeir hafa undanfarið verið að hvetja fólk til að koma ekki til Sýrlands eða Íraks heldur að hvetja fólk til að fremja hryðjuverk í sínu heimalandi. Hryðjuverkaógnin hefur stórvaxið í Evrópu. Við sjáum bara dæmi um það í Noregi. Íslensk lögregluyfirvöld geta einfaldlega ekki leyft sér að lifa í þeirri trú að ekkert gerist á íslandi. Við berum ábyrgðina og við verðum að vera í stakk búin til að takast á við svona mál eins og aðrar þjóðir."