Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Markaðssetja ópíóíða í Kína

23.11.2019 - 21:04
Erlent · Kína · Lyf · Ópíóíðar
Boxes of OxyContin tablets sold in China sit on a table in southern China's Hunan province on Sept. 24, 2019. Representatives from the Sacklers' Chinese affiliate, Mundipharma, tell doctors that OxyContin is less addictive than other opioids — the same pitch that their U.S. company, Purdue Pharma, admitted was false in court more than a decade ago. (AP Photo/Mark Schiefelbein)
 Mynd: AP
Á meðan tekist er á um sölu ópíóíða fyrir dómstólum í Bandaríkjunum er bandarískt lyfjafyrirtæki sakað um að beita sömu meðulum við markaðssetningu ópíóíða í Kína. Starfsmenn lyfjafyrirtækisins voru látnir dulbúast sem læknar til að nálgast viðskiptavini.

Purdue Pharma er eitt þeirra bandarísku lyfjafyrirtækja sem nú standa í ströngu fyrir dómstólum víða um Bandaríkin, ásökuð um að eiga stóran þátt í útbreiðslu ópíóíða, lyfseðisskyldra ávandabindandi verkjalyfja. Neysla þeirra hefur aukist svo mjög þar vestra að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í málaflokknum. 

Vegna þessa var Purdue Pharma lýst gjaldþrota í september, en það sem kannski færri vita er að á meðan hallar undan fæti í heimalandinu, róa eigendur Purdue Pharma á önnur mið, nánar tiltekið Kína. 

Í fréttaskýringu AP fréttastofunnar kemur fram að fyrirtækið Mundipharma, sem líkt og Purdue Pharma, er í eigu bandarísku Sackler fjölskyldunnar, hefur staðið fyrir umfangsmiklum aðgerðum til að hasla sér völl í Kína. 

Í kynningarefni sem starfsfólki fyrirtækisins var gert að auglýsa kemur fram að oxycontin sé mun minna ávanabindandi en önnur smabærileg verkjalyf. Það er sami málflutningur og var hrakinn fyrir dómi í Bandaríkjunum fyrir meira en áratug. 

Fyrrverandi starfsmenn Mundipharma lýsa því að öllum meðulum hafi verið beitt til að ná nýjum viðskiptavinum. Allt frá því að útbúa varning merktan oxycontin í bak og fyrir, yfir í að starfsmenn hafi dulbúið sig sem lækna og rætt við sjúklinga á spítölum. 

Sackler fjölskyldan vildi ekki tjá sig um málið við AP fréttastofuna

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV