Margt reynt til að bæta aðstöðuna á bráðamóttöku

09.01.2020 - 09:23
Alma Möller, landlæknir. - Mynd: Viðar Gíslason / RÚV
Landlæknir segir að bent hafi verið á vanda bráðadeildar Landpítalans fyrir ári og í eftirfylgniúttekt fyrir hálfu ári. Það hafi verið vonbrigði að ekki hafi verið brugðist við ábendingum til að bæta aðstöðuna. 

„Og [þegar eftirfylgniúttektin kom út] hafði ekki verið unnið með þessa tillögu okkar um að reyna að skapa aðstöðu annars staðar en á bráðadeildinni. Þannig að jú það olli okkur vonbrigðum,“ sagði Alma Möller í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Landlæknir segir að vandi bráðadeildar Landspítalans sé flókinn og eigi sér langa sögu og það eigi eftir að taka tíma að leysa hann. Unnið sé að því að draga úr skorti á hjúkrunarrýmum og úrræðum fyrir aldraða til að vera lengur heima. Þyngst vegi skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum og vinna við að bæta úr því þyrfti að ganga hraðar. 

„Til að leysa vanda bráðamóttökunnar núna þarf að reyna að skapa aðstöðu þannig að sjúklingarnir þurfi ekki að bíða þar á göngum heldur að reyna að skapa aðstöðu á öðrum deildum, á öðrum svæðum, þar sem fólk fær viðunandi aðbúnað.“

Stjórn læknaráðs Landspítalans skoraði í gær á heilbrigðisyfirvöld að auka fjárveitingar til spítalans vegna stöðunnar á bráðadeildinni og vaktstjórar hjúkrunar á bráðadeild sömuleiðis. Vaktstjórum sé ekki kleift að stýra yfirfullri Bráðamóttökunni sem skyldi og sjúklingar liggi berskjaldaðir á göngum deildarinnar.

Landlæknir segir mikilvægt að fara yfir lausnir og það sé gert á landspítalanum. Embættið eigi eftir að heyra meira um það á fundi með stjórnendum Landspítalans. 

„Það er búið að gera eitt núna bara í nokkra daga sem ég veit um. Þau hafa opnað hæðina fyrir ofan bráðamóttökuna til að skapa meira pláss. Þar er núna opið á nóttinni en var annars lokað. Þannig að það er mikið verið að reyna að gera til þess að bæta aðstöðuna því það er auðvitað alveg óásættanleg aðstaða þarna fyrir bæði sjúklinga og starfsfólk að allt of margir sjúklingar bíði, og hvað þá á göngum. Það er auðvitað ekki boðlegt.“