Margt óljóst varðandi Grímsstaði

13.05.2012 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd:
Oddviti Tjörneshrepps segir margt óljóst í áformum sveitarfélaga um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum. Til dæmis hafi skipulags- og fráveitumál ekki verið leyst. Að minnsta kosti tvö sveitarfélög á Norðausturlandi ætla ekki að koma að hlutafélagi um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum.

Fulltrúar sveitarfélaga á Norðausturlandi hittust á föstudag til að setja á fót undirbúningsfélag um að kaupa Grímsstaði á Fjöllum, og leigja félagi Huangs Nubos.

Enginn fulltrúi Skútustaðahrepps mætti. Forsvarsmenn sveitarfélagsins segja að á sama tíma og verið sé að draga saman í grunnþjónustu sjái menn sér ekki fært að taka þátt í að stofna svona félag.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur ekki tekið formlega ákvörðun um þátttöku. Árni Pétur Hilmarsson, hreppsnefndarmaður, fór ásamt öðrum fulltrúa á fundinn til að afla upplýsinga. Hann segir að þeim finnist ekki rétt að Þingeyjarsveit verði með en að þeir vilji verkefninu allt hið besta.

Í Tjörneshreppi var ákveðið að senda ekki fulltrúa á fundinn. Steinþór Heiðarsson oddviti segir að sveitarfélagið verði ekki með í hlutafélaginu. Hann segir margt enn óljós um kaupin, til dæmis fráveitumál og skipulagsmál. Ef reisa eigi fimm stjörnu hótel með 200 herbergjum sé starfsmannaþörf mikil. Eitthvað af starfsfólkinu hljóti að verða að búa á Grímsstöðum, enda geti veður þarna verið válynd og færð erfið. Þá hljóti að þurfa að byggjast upp þorp á svæðinu, sem þurfi grunnskóla, leikskóla, lágmarks heilsugæslu og ýmsa aðra þjónustu.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi