Ragnhildur Hólmgeirsdóttir skrifar:
„Þegar við skoðum fortíðina þá blasa stundum við atriði sem eru miðlæg í mannlegri tilveru en samt næstum því óþekkt með öllu í dag. Eitt af þessum atriðum er saga fæðinga. Hver einasta mannvera sem uppi hefur verið hefur litið dagsins ljós í þessu ferli og stór hluti hvers samfélags upplifir það að fæða aðra manneskju. Hins vegar vitum við mjög lítið um fæðingar í fortíðinni annað en það að þær gengu nokkurn veginn upp, svona í meirihluta tilvika. Ástæðan fyrir þessari þögn er sú að fæðingar tilheyra reynsluheimi kvenna sem rataði sjaldan í ritaðar heimildir. Það eru konur sem fæða börn og lengst af var það hlutverk annarra kvenna að hjálpa þeim. Þetta tók fyrst að breytast af alvöru í hinum vestræna heimi á 17. og 18. öld þegar háskólamenntaðir karlmenn tóku að láta sig málið varða. Þá hófst opinbert eftirlit víða í Evrópu með störfum ljósmæðra. Þetta eftirlit fól í sér samþykki karlmanna á starfi þeirra, auk þess sem þeir fóru að gefa út fræðsluefni handa ljósmæðrum um það hvernig ætti nú eiginlega að gera þetta.
Góð ljósmóðir gat skipt sköpum
Við þetta stóraukast heimildirnar, en ljóst er að þær gefa skekkta mynd af því hvernig konur fæddu fyrir þennan tíma og hvernig aðstoð ljósmæður veittu þeim. Við getum þó gefið okkur það að í tvísýnum fæðingum þar sem aðstæður voru fyrirfram erfiðar, þá bjuggu ljósmæður ekki yfir læknisfræðilegum úrræðum til að skilja á milli lífs og dauða, eins og heilbrigðisstarfsfólk hefur í dag. Til eru lýsingar frá Englandi á 17. og 18. öld á því hvað ljósmæður gerðu fyrir skjólstæðinga sína og það var ekki mikið umfram það að veita spangarnudd og gefa jurtamixtúrur. Konur urðu heldur ekki ljósmæður með sérlega formlegum hætti í Englandi á 17. öld. Venjan var að töluverður fjöldi kvenna liti við í fæðingunni og hefði eitt eða annað óljóst hlutverk. Ef konur fundu að þetta starf átti vel við þær gátu þær gerst lærlingar hjá reyndri ljósmóður og tekið á sig æ stærri hlutverk í fæðingarstofunni, þar til þær nutu nægs trausts hjá konum til að vera beðnar um að taka á móti barni. Jafnvel þó opinber leyfisveiting og skráning ljósmæðra hafi þegar verið hafin um þetta leyti þá sóttu konur ekki um leyfið fyrr en þær höfðu starfað sem ljósmæður um nokkurt skeið og orðið sér úti um töluverða reynslu. Þó ljósmæður hafi ekki búið yfir kraftaverkaþekkingu á sviði læknisfræðinnar þá er augljóst af heimildum að góð ljósmóðir gat skipt sköpum í fæðingunni, sængurkonan gat þá treyst því að einhver sem þekkti ferlið gæfi henni bestu aðstoð sem í boði væri, sama hversu lítilvæg sú aðstoð kann að virðast í okkar augum. Eða svo við vitnum í orðin sem Súsanna Watkin æpti upp í hríðum á 17. öld , „Í guðs bænum náið annaðhvort í Ellin Jackson, eða sláið mig í rot.“