Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Margir vöknuðu við skjálftann

02.04.2013 - 08:05
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjölmargir íbúar í Grímsey vöknuðu í nótt þegar stóri skjálftinn reið yfir, og eftirskjálftarnir hafa fundist þar greinilega.

Gylfi Gunnarsson, íbúi í Grímsey, segist hafa hrokkið upp með andfælum við þennan hristing og hávaða, en hann hafi verið steinsofandi. Ekkert hafi þó hrunið úr hillum, en kippurinn hafi verið snarpur.

Ragnhildur Hjaltadóttir, íbúi í Grímsey, segist einnig hafa vaknað við skjálftann. Hann hafi verið harkalegur og húsið kippst til. Heyrst hafi dunur og síðan húsið hristst til frá suðri til norðurs og aftur tilbaka. Ekkert tjón hafi orðið.

Á Akureyri fannst stærsti skjálftinn mjög greinilega. Þar hrökk fólk upp úr svefni  og einn viðmælandi fréttastofu að líkast hefði verið sem stór flutningabíll hefði ekið meðfram húsveggnum. Þar skalf og glamraði í hillum. En skjálftinn fannst ekki alls staðar á Akureyri, því á lögreglustöðinni urðu menn ekki varir við neitt. Í Aðaldal fannst skjálftinn mjög vel í húsi sem liggur þannig að þar finnast venjulega ekki skjálftar.