Margir nýir í Mýrdalshreppi

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - RÚV
Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á sveitarstjórninni í Mýrdalshreppi þar sem fjórir af fimm gefa ekki kost á sér áfram. Eins og í síðustu kosningum eru tveir listar nú í boði en báðir nýir. Ekki virðast miklar væringar með þeim og eru leikskóla- og skipulagsmál efst á baugi beggja.

Listarnir tveir sem bjóða fram að þessu sinni eru L-listi Framtíðarinnar og T-listi Traustra innviða. Á þeim síðarnefndi skipar núverandi varaoddviti þriðja sætið og er eini sveitarstjórnarmaðurinn sem sækist eftir endurkjöri. Í síðustu kosningum fékk B-listi Framfarasinna meirihluta og þrjá menn og M-listi Mýrdælinga tvo.

Elín Einarsdóttir oddviti sveitarstjórnarinnar er ein þeirra sem lætur nú af störfum en hún hefur setið í hreppsnefnd í 16 ár. „Það er misjafnt hvað fólki þykir hæfilegt í þessum efnum. Mér þykir þetta að minnsta kosti orðinn allnokkur tími og þótt verkefnin séu skemmtileg er tímabært að aðrir taki við keflinu.“ Á meðal þeirra sem gera má ráð fyrir að taki við því eru sonur Elínar, Einar Freyr sem leiðir Trausta innviði og Ragnheiður Högnadóttir sem er leiðtogi Framtíðarinnar.

Leikskóli í lamasessi

Íbúum sveitarfélagsins hefur fjölgað um meira en þriðjung á þremur árum. Elín oddviti segir mikla vaxtarverki fylgja svona örri fjölgun. „Liðlega þriðjungur íbúanna er af erlendu bergi brotinn. Það eru bæði eðlilegar og nauðsynlegar afleiðingar af þeim öra vexti sem orðið hefur í ferðaþjónustunni. Við þessar aðstæður reynir vitaskuld mjög á alla innviði eins og leikskóla, grunnskóla og dvalarheimili. Vinnustaðirnir keppa um sama fólkið og okkur hefur til að mynda ekki gengið vel að manna leikskólana. Þar eru börn á biðlista vegna manneklu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir

Leiðtogar bæði L og T listans segja leikskólamálin í lamasessi og því verði að breyta. Ragnheiður segir þetta langstærsta úrlausnarefnið. „Okkur hefur ekki tekist að manna leikskólana og undanfarið ár hefur stundum þurft að senda börn heim í hverri viku. Engin börn hafa heldur verið tekin inn. Við þurfum nýjan leikskóla í Vík og þótt það sé langtímamál að byggja hann þarf að hefjast handa við undirbúning. Leikskólinn þarf að verða nógu spennandi vinnustaður til að fólk kjósi að vinna þar og við sem samfélag verðum að taka höndum saman og leysa þetta mál.“

„Við setjum skóla- og fræðslumál á oddinn,“ segir Einar Freyr.  „Mannfæð á leikskólanum veldur verulegum vandræðum. Það gefur auga leið að þegar senda þarf börnin heim í hverri viku þá truflar það bæði skólastarfið og atvinnulífið. Þetta er afleit staða fyrir barnafólk og það er ekki auðvelt fyrir fjölskyldur að flytja á staðinn meðan svona er í pottinn búið. Ein leið til að liðka fyrir og við höfum meðal annars á stefnuskránni, er að starfsfólk skólanna fá afslátt af leikskólagjöldum. Svo verðum við bara að leita logandi ljósi að fólki til að vinna á leikskólanum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Boaworm - Wikimedia

Krefjandi skipulagsmál

Oddvitinn segir það nánast hafa verið kapphlaup við tímann að skipuleggja sveitarfélagið miðað við nýjar aðstæður og gríðarlega mikla uppbyggingu. „Þessir vaxtarverkir hafa krafist mikils í skipulagsmálum og reynt á. Okkur hefur bara gengið býsna vel og tekist að skaffa lóðir fyrir íbúðarhúsnæði. Um þessar mundir er verið að taka töluvert af húsnæði í notkun, annað á lokametrunum og enn annað á teikniborðinu. Allt í allt eru þetta líklega einar 40- 50 íbúðir af öllum stærðum og gerðum,“ segir Elín.  

Einar Freyr segir að fyrir hálfum öðrum áratug hafi líklega engan óraði fyrir þeim vaxtarkipp sem hafi  orðið í sveitarfélaginu á allra síðustu árum. „Þessi mikla þensla er vitaskuld ánægjuleg og hefur jákvæð áhrif en það fylgja óhjákvæmilega vaxtarverkir sem takast þarf á við. Rekstur sveitarfélagsins er góður en það er samt mikilvægt að sýna ráðdeild. Við ætlum svo að taka umhverfismálin föstum tökum og gera Mýrdalshrepp að einu snyrtilegasta sveitarfélagi landsins.“

Miðað við hljóðið í oddvitunum má ef til vill segja að litlar væringar séu í Vík því Ragnheiður talar á sömu nótum og Einar Freyr í umhverfismálum, rétt eins og þau gera í leikskólamálunum. Henni finnst að taka þurfi til hendinni. „Ég nefni þar viðhalda gatna og gangstétta sem er ábótavant og fleira smálegt mætti nefna sem setið hefur á hakanum. Það safnast þegar saman kemur,“ segir Ragnheiður leiðtogi Framtíðarinnar.  

Breyting hringvegarins mikið hagsmunamál

„Mér finnst stjórnvöld loksins vera að átta sig á hvað það er mikilvægt að styrkja innviði landsbyggðarinnar, samanber til dæmis nýjar fyrirætlanir með Þróunarmiðstöð heilsugæslu á landsvísu,“ segir Elín.  „Hringvegurinn er svo annað afar brýnt mál hér á bæ. Ein og hálf milljón manna fer í gegnum þorpið á ári hverju sem er allt of margir miðað við núverandi aðstæður. Ég hef alla mína sveitarstjórntíð barist fyrir því að þjóðvegi 1 verði breytt við Vík. Við viljum nýja veglínu þannig að hringvegurinn fari bæði í gegnum Reynisfjall og niður fyrir þorpið á sandana fyrir sunnan það.“

Tveir sandfangarar hafa verið gerðir í fjörunni við Vík. Sá fyrri kom árið 2012 og segir Elín að hann hafi algjörlega sannað gildi sitt. „Landrofið hefur verið heft og með einum sandfangara til viðbótar enn austar, má ætla að strandlínan verði algjörlega stabíl á löngum kafla svo nýjum vegi þar yrði engin hætta búin.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórir Níels Kjartansson - RÚV

Ragnheiður tekur undir með Elínu um nauðsyn þess að færa hringveginn út úr Vík en telur önnur samgöngumál brýnni til skemmri tíma. Annars vegar verði að setja gangbrautarljós upp í þorpinu til að auka öryggi gangandi vegfarenda og hins vegar þurfi að knýja á um að brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi verði tvöfölduð. „Það er ólíðandi að hafa einbreiða brú á þessum fjölfarna þjóðvegi og gangbrautarljós eru lífsnauðsyn. Helmingur skólabarna í þorpinu þarf að fara daglega yfir hringveginn, auk annarra, svo öryggishagsmunirnir eru gríðarlegir. Það er góð hugmyndin að færa þjóðveginn niður fyrir þorpið en gæti tekið langan tíma að ljúka. Sveitarstjórnin hefur sett of mikið púður í þá vinnu þannig að önnur mikilvæg verkefni hafa liðið fyrir.“

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn

T-listinn ætlar að vinna áfram að láglendisvegi um Mýrdalinn. Einar Freyr er ósammála Ragnheiði um að langt geti verið í það. „Þetta þarf alls ekki að vera fjarlægur draumur og getur hæglega orðið að veruleika innan ekki langs tíma. Samgönguráðherra hefur sýnt þessu skilning og áttir á sig á þörfinni. Ég vona því að þetta gangi hratt og vel fyrir sig,“ segir hann.  

Engin lögga í Vík?

Breytingar verða í löggæslu í Mýrdalshreppi um næstu mánaðamót þegar búast má við að enginn lögregluþjónn verði búsettur þar. Þeir tveir sem verið hafa hverfa þá annað og ekki hefur tekist að ráða í staðinn. „Mér óar við þessu og finnst það ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum að svona sé komið. Það sýndi sig árið 2011, þegar brúnna yfir Múlakvísl tók af, hve miklu máli skiptir að hér sé lögregluþjónn að staðaldri. Þetta er mjög alvarlegt og við erum ósátt við að öryggi íbúa og ferðalanga sé skert svona,“ segir Elín. Hún bendir á að um þessar mundir og næstu mánuði megi búast við að hartnær 2.500 manns eða fleiri gisti á sólarhring í sveitarfélaginu þegar gistirými þar sé vel nýtt. Leiðtogar framboðanna beggja taka heilshugar undir áhyggjur hennar.

Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi segir að auglýst hafi verið bæði eftir varðstjóra og lögregluþjóni í Vík. Því miður hafi engar umsóknir borist. „Við auglýsum áfram en þangað til tekst að ráða í stöðurnar þá verður löggæslu sinnt eins vel og hægt er eins og ávallt. Eftirlitið verður sýnilegt með mannskap frá bæði Hvolsvelli og Kirkjubæjarklaustri sem fer reglulega á svæðið.“  

Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi