Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Margir möguleikar í stjórnarmyndun

23.09.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, vill leiða ríkisstjórn um félagshyggju og umhverfisvernd eftir næstu kosningar og útilokar ekki stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Vinstri græn eru stærsti flokkur landsins miðað við niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var dagana 19. til 21. september og birtist í Morgunblaðinu í dag, njóta Vinstri græn stuðnings 30 prósenta kjósenda og myndu því ríflega tvöfalda þingstyrk sinn, fá 22 þingmenn í stað 10, skili þetta sér alla leið í kjörklefann. Sjálfstæðisflokkurinn tapar töluverðu fylgi; 23 prósent þeirra sem afstöðu taka ætla að kjósa hann. Það myndi skila honum 15 þingmönnum í stað 21 í dag. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 11 prósent, sem gefur 7 þingmenn, þá koma Píratar með 10 prósent og 6 þingmenn. 9 prósent styðja Flokk fólksins, sem samkvæmt þessu fengi 5 þingmenn, 8 prósent styðja Samfylkingu, sem einnig fengi 5 þingmenn og Viðreisn nýtur stuðnings sex af hverjum hundrað kjósendum, sem gæti skilað þeim þremur þingmönnum. Fylgi Bjartrar framtíðar mælist þrjú prósent, sem dugar ekki til að koma manni á þing.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna segist taka þessum niðurstöðum með jafnaðargeði, en hún segist finna mikinn meðbyr á meðal fólks.

„Ég get bara sagt það að ég hlakka til að fara af stað í þessa kosningabaráttu og eiga þetta samtal við fólkið í landinu.

Menn voru að ergja sig á því eftir síðustu kosningar að ekki væri hægt að mynda 2ja flokka stjórn eins og oft hefur verið gert hér á landi. Sá möguleiki er fyrir hendi miðað við þessar niðurstöður að mynduð verði tveggja flokka stjórn VG og Sjálfstæðisflokksins. Hvernig hugnast þér það?

Ja, mér sýnast ýmsar samsetningar mögulegar miðað við þessa skoðanakönnun, og ágætar samsetningar eftir því sem ég fæ best séð. Það sem mér hugnast er að að við í Vinstrihreyfingunni - Grænu framboði verðum í þeirri stöðu að geta leitt hér ríkisstjórn um félagshyggju og umhverfisvernd eftir kosningar og ég er reiðubúin að vinna með þeim sem vilja vinna með okkur að þeim markmiðum?

Og þú útilokar ekkert Sjálfstæðisflokkinn frekar en annað, af því að ég spurði þig um tveggja flokka stjórn?

Við göngum til þessara kosninga bundin af málefnum, en ekki endilega af flokkum.“

Aðrir flokkar og framboð mælast samtals með undir eins prósents fylgi. Könnunin var hvort tveggja net- og símakönnun. 2.000 manns voru í úrtakinu, 908 svöruðu, eða 46 prósent. 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir