Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Margar neikvæðar umsagnir um reglugerð um fiskeldi

21.01.2020 - 11:54
Arnarlax, Laxeldi Sjókvíar, Fiskeldi, Arnarborg, Iðnaður, Tálknafjörður. Dróni.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Mörg náttúruverndarsamtök og hagsmunaaðilar mótmæla harðlega áformum sjávarútvegsráðherra um að fella úr gildi bann við sjókvíaeldi í ákveðinni fjarlægð frá laxveiðiám. Alls bárust 39 umsagnir um reglugerð ráðherra.

Samkvæmt nýrri reglugerð um fiskeldi sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra birti til umsagnar um miðjan desember er lagt til að bann við sjókvíaeldi í ákveðinni fjarlægð frá laxveiðiám verði fellt úr gildi. Kristján Þór og Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun hafa báðir sagt að með þessu sé ekki verið að slaka á reglum.

Lúsafár og smithætta

Frestur til að skila umsögnum um reglugerðina rann út á föstudaginn. Alls bárust 39 umsagnir. Margar þeirra eru neikvæðar, og þá sérstaklega um þann þátt að fella eigi brott ákvæðið um fjarlægðarmörkin. Á meðal þeirra sem mótmæla því eru Landssamband veiðifélaga, Veiðifélag Langadalsár, Hvannadalsár og Þverár, Ungir umhverfissinnar, Íslenski náttúruverndarsjóðurinn, Verndarsjóður villtra laxastofna og Náttúruverndarsamtök Íslands. En hvers vegna er þessu mótmælt?

„Vegna þess að það minnkar eða gerir að nær engu vörnina sem fjarlægðin felur í sér gagnvart staðsetningu eldisósa og laxveiðiáa. Það dregur úr þessari vernd sem fjarlægðin gefur,“ segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Hvaða áhrif óttist þið að það geti haft?

„Það getur valdið lúsafári, smithættu fisksjúkdóma frá eldiskvíum og sjónmengun í ósnortinni náttúru.“

Ráðherra hefur sagt að það sé búið að lögfesta áhættumat erfðablöndunar og með því sé verið að setja strangari skilyrði en með fjarlægðartakmörkunum - er það ekki rétt?

„Nei ekki hvað varðar lúsafárið og smithættuna. Þetta nær ekki til þess. Og sjónmengunin er ekki þar inni heldur,“ segir Árni.