Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Már: Tvíbent niðurstaða aflandskrónuuppboðs

21.06.2016 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, segir niðurstöðu úr aflandskrónuútboði bankans tvíbenta. Tekist hafi að fækka mjög aflandskrónueigendum en stórir aflandskrónueigendur hafi ekki tekið þátt í útboðinu.

Niðurstaða aflandskrónuútboðs Seðlabankans var kynnt í dag en útboðið er stór liður í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Ákveðið var að taka öllum þeim tilboðum þar sem aflandskrónueigendur buðust til að greiða 190 krónur eða meira fyrir evruna. Bankinn bauðst til að kaupa 178 milljarða aflandskróna í útboðinu en þegar upp var staðið voru samþykkt tilboð í rúmlega 72 milljarða. Fyrir það greiðir bankinn 47 milljarða í gjaldeyri.

Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri segir að niðurstaðan sé tvíbent: „Á aðra röndina fengum við eitthvað 1690 tilboð og við tókum 98% þeirra þannig að það er mjög mikið af einstaklingum og lögaðilum sem fara í gegn og hreinsast út úr aflandskrónustöðunni. Það er jákvætt. Á hina röndina er það alveg ljóst að frekar stórir aflandskrónueigendur hafa annað hvort ekki tekið þátt eða boðið gengi sem við gátum ekki fallist á.“ 

Næstu skref eru afnám hafta

Þeim aflandskrónueigendum, sem ekki tóku þátt í útboðinu eða hverra tilboðum var ekki tekið, verður nú boðið að kaupa evrur á genginu 190. Þegar búið er að gera viðskiptin upp er næsta skref að losa um höftin. Það þarf þingið að gera með lögum í ágúst.

„En alveg óháð þessari niðurstöðu er á það að líta að þetta var hannað þannig að þetta er síðasta útboðið áður en við förum að losa höftin á innlendu aðilana sem verður þá fljótlega. Þetta er hannað þannig að þeir sem fara ekki út núna þeir haldast inni í svipuðu umhverfi semsagt efnahagslega og varðandi fjárfestingakosti eins og þeir hafa verið í fram að þessu með breytingum sem voru nauðsynlegar til að tryggja það að það umhverfi héldi jafnvel þó við losum höftin á innlendu aðilana. Þeir fara aftast í röðina þeir voru fremstir og svo einhvern tíman kemur röðin að þeim aftur“ segir Már Guðmundsson.

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV