Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mannslíkaminn gæti átt svar við krabbameini

21.01.2020 - 04:29
Lymphocyte
Smásjármynd af T-frumu. Mynd: NIAID - Flickr.com
Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til þess að ákveðin fruma í mannslíkamanum geti unnið gegn krabbameini. Tilraunir leiddu í ljós að meðferðin drap ristil-, brjósta- og lungnakrabbamein og fleiri afbrigði.

Vísindamenn við háskólann í Cardiff leituðu að óhefðbundnum og áður óþekktum leiðum ónæmiskerfisins til að vinna gegn krabbameini. Ónæmiskerfið er náttúruleg vörn líkamans gegn sjúkdómum og getur það einnig ráðist á krabbameinsfrumur. Meðal frumna í ónæmiskerfinu eru T-frumur. Þær geta yfirfarið líkamann til þess að finna ógnir sem verður að eyða.

Sama meðferð fyrir alla?

Vísindamennirnir í Cardiff fundu T-frumu með áður óþekkta eiginleika í blóðrásinni. Munurinn á henni og öðrum T-frumum er að hún getur ráðist á mörg afbrigði krabbameins. Andrew Sewell, einn vísindamannanna, sagði í viðtali við BBC að fruman gæti hentað við meðferð á öllum krabbameinssjúklingum. Hingað til hefur það verið talið ómögulegt að sama meðferð virki gegn öllum afbrigðum krabbameins. 

T-frumur eru með nema á yfirborði sínu sem aflar þeim upplýsinga um efnaskipti líkamans. Þessi tiltekna T-fruma ræðst gegn krabbameini. Í rannsóknum vísindamannanna í Cardiff tókst henni að drepa fjölbreyttan hóp krabbameinsfrumna, til að mynda úr lungum, blóði, ristli, brjóstum, beinum, blöðruhálskirtli, leghálsi, nýrum og eggjastokkum. Það sem meira er þá lætur T-fruman heilbrigða örvefi vera. 

Eina sinnar tegundar

Enn er unnið að því að rannsaka hvernig fruman fer að þessu. Vitað er að þessi tiltekna T-fruma vinnur með sameind sem kallast MR1, sem er að finna á yfirborði allra frumna líkamans. Talið er að MR1 láti ónæmiskerfið vita af óreglulegum efnaskiptum innan krabbameinsfrumna. Garry Dolton, einn vísindamannanna að baki rannsókninni, segir að þetta sé fyrsta T-fruman sem vitað sé að finni MR1 í krabbameinsfrumum. 

T-frumumeðferð er þegar í boði fyrir krabbameinssjúklinga. Sú meðferð hefur virkað vel gegn krabbameini í blóði, á borð við hvítblæði, en skilað litlum árangri í baráttu gegn krabbameinsfrumum sem mynda æxli. Vísindamennirnir í Cardiff telja nemann í T-frumunni þeirra geta leitt af sér meðferð gegn öllum tegundum krabbameins.

Enn á tilraunastigi

Að sögn BBC er hugmynd vísindamannanna svipuð T-frumumeðferðinni sem nú er í boði. Þá verður blóðsýni tekið úr krabbameinssjúklingi, og T-frumur teknar úr því. Þeim verður erfðabreytt þannig að þær virki allar eins og T-fruman sem getur tekist á við krabbamein. Þannig frumur verða svo ræktaðar í miklu magni og komið fyrir í blóðrás sjúklingsins. Hingað til hafa engar tilraunir verið gerðar á mönnum, en tilraunir á dýrum og frumum á tilraunastofunni skiluðu góðum árangri. 

Þó rannsóknin vekju vissulega vonir er enn langt í land. Daniel Davis, prófessor í ónæmisfræði við Manchester-háskóla, segir að rannsóknin sé aðeins á byrjunarstigi og langt þar til hún kemst á það stig að hún verði að hefðbundinni lausn fyrir sjúklinga. Hann fer þó ekki í grafgötur með það að þetta sé spennandi uppgötvun, bæði vegna þeirrar auknu þekkingar á ónæmiskerfinu sem hún olli og framtíðarmöguleikum meðferðarinnar.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV