Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mannskæður jarðskjálfti á Haítí

07.10.2018 - 07:19
Mynd með færslu
 Mynd: USGS
Minnst ellefu týndu lífi þegar jarðskjálfti, 5,9 að stærð, skók norðvesturströnd Haítí laust eftir klukkan átta í gærkvöld að staðartíma, eða skömmu eftir miðnætti í nótt að íslenskum tíma. Töluvert tjón varð einnig á mannvirkjum þegar skjálftinn reið yfir. Upptök skjálftans voru á tæpra tólf kílómetra dýpi um tuttugu kílómetra norðvestur af borginni Port-de-Paix, héraðshöfuðborg Norðaustur-héraðs á Haítí.

Norðausturhérað er fátækasta hérað þessa fátæka ríkis, og þar eru mörg afskekkt og nánast einangruð byggðalög þar sem vegasamgöngur eru allar í lamasessi og fjarskiptakerfi líka. Því er ekki hægt að útiloka að fleiri hafi farist í skjálfta gærdagsins. Skjálftinn fannst líka í höfuðborginni Port-de-Prince og vakti þar nokkurn ótta meðal borgarbúa, sem enn muna allt of vel eftir skjálftanum sem varð minnst 200.000 manns að bana árið 2010. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV