Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mannskæð hryðjuverkaárás í Mógadisjú

16.06.2019 - 01:21
epa07650007 A destroyed vehicle at the scene of an explosion near the parliament building in Mogadishu, Somalia, 15 June 2019. Several people are feared dead in twin explosions that took place near the parliament and near KM4 street. The country's Islamist militant group al-Shabab who is fighting the western-backed government often carries out attacks in the capital.  EPA-EFE/SAID YUSUF WARSAME
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst átta létust og tugir særðust þegar tvær bílsprengjur sprungu með skömmu millibili í Mógadisjú, höfuðborg Sómalíu, á laugardag. Hryðjuverkasamtökin al-Shabab hafa þegar lýst illvirkinu á hendur sér. AFP fréttastofan hefur eftir starfsmanni sjúkraflutningaþjónustu í Mógadisjú að átta lík hafi verið flutt af vettvangi fyrri sprengingarinnar og sextán sem særðust flutt á sjúkrahús.

Fyrri sprengjan sprakk í miðborg Mógadisjú, ekki fjarri forsetahöllinni og höfuðstöðvum Sómalíuþings. Enginn dó í seinni sprengingunni, þegar bíll sprakk við eftirlitsstöð á veginum að alþjóðaflugvelli borgarinnar, en Bashir Abdi Mohamed, hershöfðingi í Sómalíuher, sagði fréttamönnum að 25 hefðu særst. Fjölmorg sendiráð eru til húsa við alþjóðaflugvöllinn.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV