Mannanafnanefnd féllst á nafnið Þorbrá þar sem það tæki íslenskri beygingu í eignarfalli. Hún gaf einnig grænt ljós á millinafnið Fritz en það verður þó ekki skráð í mannanafnaskrá.
Nefndin hleypti ekki í gegn nöfnunum Zoe og Daniela. Rithátturinn á Zoe er að mati nefndarinnar ekki í samræmi við ritreglur íslensks máls þar sem bókstafurinn z sé ekki notaður í íslenskri stafsetningu. Rétt er þó að geta þess að einn þeirra sem enn notar z-una er Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að sjö konur beri nafnið Zoe samkvæmt þjóðskrá - sú elsta er fædd 1979 og því telst nafnið ekki hafa öðlast hefð.
Af sömu ástæðum var nafninu Danielu ekki hleypt í gegn. Aðeins fjórar stúlkur bera nafnið og sú elsta er fædd 2009, að því er fram kemur í úrskurði mannanafnanefndar. Hún bendir enn fremur á að ritháttur nafnsins sé ekki í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls - i sé ekki ritað á undan e í ósamsettum orðum.
Samkvæmt uppfærðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er von á frumvarpi í lok mars frá Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, þar sem til stendur að breyta lögum um mannanöfn. Ólöf hefur sjálf sagt að hún vilji afnema mannanafnalög. „„Ég held að það eigi að vera þannig að foreldrar eigi að ákveða sjálfir hvað börnin þeirra eigi að heita,“ sagði ráðherrann í viðtali við Bylgjuna um mitt síðasta ár.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, lagði fram frumvarp fyrir tæpum tveimur árum að mannanafnanefnd yrði hreinlega lögð niður. Mannanafnanefnd taldi slíkt óráð í umsögn sinni og benti á að flestar nöfnum væri hafnað vegna ritháttar. Ef mannanöfn þyrftu ekki að lúta íslenskum stafsetningar- og málfræðireglum yrði erfiðara að finna þau í skrám.