Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mánaðarlöng kvikmynd frumsýnd 2020

Mynd með færslu
Skjáskot úr kvikmyndinni. Mynd: Anders Weberg - Vimeo

Mánaðarlöng kvikmynd frumsýnd 2020

17.04.2016 - 03:22

Höfundar

Fyrir nokkru voru kvikmyndir að öllu jöfnu 90 mínútna langar. Síðustu ár hafa kvikmyndagerðamenn teygt lopann og þær myndir sem hafa barist um Óskarsverðlaunin oft verið upp undir þriggja klukkustunda langar. Sá tími er þó ekki nema brot af kvikmyndinni Ambiance eftir Svíann Anders Weberg sem sýnd verður árið 2020.

Myndin verður mánaðarlöng og sendi hann nýlega frá sér sjö klukkustunda og tuttugu mínútna langa stiklu. Þessi stikla er lítið annað en upphitun fyrir næstu stiklu sem Weberg sendir frá sér árið 2018. Að sögn vefsíðu tímaritsins NME verður sú stikla þriggja sólarhringa löng. Árið 2014 sendi hann frá sér svokallaða kitlu, eða teaser, sem var litlar 72 mínútur.

Kvikmyndin er tekin upp í Hovs Hallar í suðurhluta Svíþjóðar. Í myndinni fléttast tími og rúm inn í súrrealískt draumkennt ferðalag á milli staða að sögn Webergs.

Þegar kvikmyndin verður loks tilbúin árið 2020 verður hún sýnd einu sinni um gervallan heiminn. Að loknum þrjátíu daga sýningartímanum verður öllum eintökum kvikmyndarinnar loks eytt.

Nýjustu stikluna má sjá hér: