Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Málverkið blómstrar á breyttum forsendum

Mynd: RÚV / RÚV

Málverkið blómstrar á breyttum forsendum

29.08.2017 - 09:42

Höfundar

„Ég vona að þetta veki hugleiðingar um hvað er hægt að gera með málverkinu og eins hugleiðingar um það hvað málverk er,“ segir Jóhannes Dagsson, listheimspekingur og sýningarstjóri sýningarinnar Málverk - ekki miðill, sem opnuð var í Hafnarborg á föstudag. 

Hugmyndin á bakvið sýninguna er að fjalla um málverkið og hvernig forsendur þess hafa breyst í samtímalist. Á sýningunni eru verk eftir níu listamenn og eru þau valin með það í huga að gefa áhorfandanum tækifæri til að velta málverkinu fyrir sér útfrá þessu nýja samhengi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Málverkið er ekki lengur það sem það var

Jóhannes segir málverkið ekki lengur vera það sem það var fyrir hálfri öld. „Nei, það er það sem er svo áhugavert,“ segir Jóhannes. „Jafnvel málverk sem líta svipað út og málverk sem voru gerð fyrir fimmtíu árum þýða allt annað í dag, hafa allt aðrar forsendur og koma inn í allt annað samhengi. Það var langt tímabil þar sem málverkið var mjög upptekið af sjálfu sér, upptekið af sínum eigin dauða og tæknilegum útfærslum, en núna er málverkið að koma aftur til sjálfs síns en á öðrum forsendum en áður, það er að segja að miðillinn sjálfur er ekki aðalmálið, heldur er hann eingöngu aðferð til að koma öðrum skilaboðum á framfæri. Það er það sem er svo spennandi, þetta er enduruppgötvun á tungumáli eða merkjamáli.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar.

Það er orðinn fastur liður að velja haustsýningar Hafnarborgar úr innsendum tillögum. Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segist hafa verið spennt fyrir tillögu Jóhannesar því hún byggi á fræðilegri rannsókn, sem sé miðlað sjálfstætt í formi sýningar. Þá hafi Jóhannes valið áhugaverða blöndu reyndari listamanna og yngri. „Jóhannes býr að því að hann er lektor við LHÍ, hefur góða innsýn í það sem er að gerast þar, og hefur valið frábæra fulltrúa yngstu kynslóðarinnar.“ 

Samhengið er lykillinn

Jóhannes segir að á síðari árum hafi samhengi málverka og vitneskja áhorfenda um það farið að skipta æ meira máli.

„Það er eitt af því sem málverkið hefur glímt við, það var oft hugsað sem sjálfstæð heild, sem hægt væri að taka inn við að sjá verkið sjálft, en núna er nánast útilokað að verk virki á þann hátt. Það þarf að hafa samhengi verksins í huga. En ég held að það virki þannig að áhorfendur þurfa ekki að koma víðlesnir inn á sýningu, heldur er það frekar þannig að þeir koma, finna verk og geta opnað þau enn frekar með því að kynna sér hvað er um að vera, hvað er höfundurinn að ætla sér, í hvað er verið að vísa. En lokamælikvarðinn er alltaf hvernig áhorfandinn bregst við, hvort þetta höfðar til hans.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Fritz Hendrik Berndsen, Hildur Bjarnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jakob Veigar Sigurðsson, Magnús Helgason, Melanie Ubaldo, Sigurður Guðjónsson og Þorgerður Þórhallsdóttir.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Málverkið er að koma með come-back“

Myndlist

Málverk sem vísa út í heim

Menningarefni

90 pappírslistaverk til sýnis í Hafnarborg