Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Malta meinar björgunarskipi að taka olíu

08.08.2019 - 06:22
Mynd með færslu
 Mynd: SOS Méditerranée
Stjórnvöld á Möltu ganga nú skrefinu lengra en áður í að hindra björgunarstarfsemi frjálsra félagasamtaka á Miðjarðarhafi. Möltustjórn hefur ítrekað neitað að leyfa flóttafólki sem bjargað hefur verið um borð skip slíkra samtaka að stíga á land á Möltu. Í gærkvöld gerðist það svo þegar björgunarskipið Ocean Viking hugðist taka olíu á Möltu, að því var meinað um að gera það, að sögn talskonu samtakanna SOS Méditerranée, sem gerir skipið út í samstarfi við Lækna án landamæra.

Búið var að gera út um tíma til eldsneytistöku í maltverskri lögsögu í gærkvöld, að sögn talskonunnar, og hafði þarlendur umboðsmaður þegar staðfest tímann. Skömmu síðar tilkynntu svo maltversk siglingamálayfirvöld, í gegnum talstöð, að engin heimild hefði verið gefin út fyrir því að Ocean Viking tæki olíu á eða við Möltu. Maltversk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um málið enn, segir í frétt Der Spiegel.

Skipið er á leið frá Marseille að Líbíuströndum, þar sem ætlunin er að svipast um eftir flóttafólki í hafsnauð. Talskona samtakanna segir að verið sé að leita annarra leiða til að nálgast olíu, svo hægt sé að halda ferð Ocean Viking áfram.