Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Málið aðeins eina kynslóð að deyja

02.12.2011 - 18:11
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórðungur íslenskra unglinga les sér aldrei til ánægju. Þetta er hærra hlutfall en í öðrum Evrópulöndum. Þeim börnum og unglingum fækkar sem lesa sér til ánægju. Menntamálaráðherra telur rétt að taka menntun kennara í íslensku föstum tökum.

Það var Mörður Árnason sem ræddi ályktun íslenskrar málnefndar 2011 um stöðu tungunnar við menntamálaráðherra á Alþingi. Mörður benti á að nýlegar kannanir sýndu að fjórðungur íslenskra ungmenna fimmtán og sextán ára lesi sér aldrei til skemmtunar. Mörður sagði þetta alvarlegt tíðindi því lesskilningi hraki með minni lestri, lesskilningur varði síðan almenna hæfni til leiks og starfa. Minni bóklestur, hvort sem er yndislestur eða lestur námsbóka, geti því leitt til þess að nemendum gangi verr í námi og verr við almenna lífsleikni.

„Eitt af því skrýtna við tungumál er að það tekur bara eina kynslóð að deyja. Íslenskan er arfur okkar sem við verðum að flytja fram til heiðurs hinum horfnu í landinu og til grundvallar og lífsfyllingar þeim sem á eftir koma. Íslenskan er því okkar mál í fleiri en einum skilningi,“ sagði Mörður.

 Eins og fram hefur komið í fréttum geta kennarar nú útskrifast án þess að hafa lokið einu námskeiði í íslensku. Menntamálaráðherra telur brýnt að taka málið föstum tökum.

„Ég lít svo á að hlutverk skólans sé að tryggja að allir fái sömu tækifæri til að geta lesið sér til skilnings, gagns og ánægju, og það eigi að vera markmiðið þó það kannski gangi aldrei út frá því að aðstæður manna eru að sjálfsögðu misjafnar. Því tel ég mjög mikilvægt að við skoðum þessi mál sérstaklega.“