Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Málefni mikilvæg en flokkshollusta minnkað

15.05.2014 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Stjórnmálafræðingar fagna 30 ára afmæli íslensku kosningarannsóknarinnar í dag. Afmælishátíð verður í Háskóla Íslands í dag undir yfirskriftinni íslenskir kjósendur í 30 ár.

Íslenska kosningarannsóknin er með þeim eldri í heiminum og þar er meiri samfella en víðast hvar annars staðar. Kosningarannsókn hefur verið gerð hér á landi eftir hverjar kosningar frá árinu 1983 og hefur Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði,  stýrt þeim frá upphafi. 

Aðspurður um megineinkenni íslenskra kjósenda segir hann að eitt af því sem hafi breyst sé að stéttarstaða, áhrif hennar eða félagslegra þátta á það hvað menn kjósa hafi enn veikst. Þessi þáttur hafi verið ekki mælst mikill árið 1983. „Málefni, og það er eiginlega meginniðurstaðan, þau skipta mjög miklu máli. Hægri vinstri skiptir ennþá miklu máli. Flokkshollusta, það að menn haldi bara með sínum flokki og kjósi hann í gegnum þykkt og þunnt, það hefur minnkað. Þetta eru kannski aðaleinkennin en auðvitað getum við greint þetta miklu betur í þessum gögnum sem eru reyndar núna í opnum aðgangi og allir geta nálgast á Félagsvísindastofnun.“

Fimm fyrirlestrar tengdir kosningarannsókninni fara fram í dag í tilefni tímamótanna. Fyrirlestrarnir verða í stofu 105 á Háskólatorgi.