Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Málefni Laugardalshallar á byrjunarstigi

Mynd: RÚV / RÚV

Málefni Laugardalshallar á byrjunarstigi

02.09.2018 - 20:30
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, eru sammála um að aðhafast þurfi í aðstöðumálum innanhúsíþrótta. Laugardalshöll er úrelt og ólögleg fyrir alþjóðlegar keppnir í handbolta og körfubolta, en leikið er í höllinni vegna undanþágu alþjóðasambanda. Framtíðin í aðstöðumálum er þó enn á byrjunarstigi.

Undanþága Færeyja dregin til baka

Það fór um forystumenn handbolta- og körfuboltahreyfinga landsins í síðustu viku þegar undanþága Færeyja til að spila handbolta í ólöglegu húsi var dregin til baka, sams konar undanþága og Laugardalshöll er á.

Færeyjingar þurfa því að spila í Danmörku í undankeppni næsta Evrópumóts í handbolta. Reykjavíkurborg á og rekur Laugardalshöll og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segist vel meðvitaður um stöðuna og málefni hallarinnar séu komin í ferli.

Húsið komið til ára sinna

„Við erum auðvitað stolt af Laugardalshöll sem slíkri og mannvirkið hefur reynst vel. En við áttum okkur á því að hún er komin nokkuð til ára sinna og alþjóðahandknattleikssambandið hefur gert ábendingar um ýmislegt sem það vill láta fara yfir og endurbæta. Við höfum verið opin fyrir því, við tókum vel í bæði erindi HSÍ og Körfuknattleikssambandsins núna í vor. Ég lagði fram við borgarráð að við myndum bara taka undir það, að huga að þessu,“ sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur og bætti við:

„En af því að þetta er og á að vera okkar þjóðarleikvangur í þessum íþróttum, þá viljum við fá menntamálaráðuneytið að borðinu og meta í sameiningu hvað langt þurfi að ganga og hvað langt eigi að ganga í þessu máli.“

Reglugerð ýti undir uppbyggingu

Menntamálaráðherra er æðsti yfirmaður íþróttamála í landinu. Hún segir það vitaskuld afleitt að aðstöðumál séu í lamasessi. Í vor var gefin út reglugerð um þjóðarleikvanga í íþróttum og ráðherra bindur vonir við að sá rammi ýti undir uppbyggingu aðstöðu.

„Reglugerðin felur það í sér að við séum að ná svolítið utan um þessa hluti, en það er ekkert því til fyrirstöðu að við setjumst öll niður og förum yfir þessi mál á uppbyggilegan og skynsamlegan hátt sem við ætlum okkur svo sannarlega að gera. Vegna þess að það er þannig að við höfum verið að standa okkur mjög vel í íþróttum og höfum verið að gera mjög góða hluti hvað þetta varðar, og það er alveg ljóst að aðstaðan þarf að vera góð.“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra. Hún var þá spurð hvort hún sæi sig fyrir sér að fljúga til Danmerkur í heimaleiki Íslands í handbolta, líkt og Færeyingar þurfa að gera.

„Nei ég vil nú helst ekki gera það.“ sagði Lilja að lokum.

Frétt RÚV um málið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.