Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Málamyndakosningar í Kambódíu

29.07.2018 - 03:43
epa06916887 Cambodian Prime Minister Hun Sen (R), holds his ballot next to his wife Bun Rany (L), at a polling station in Kandal province, Cambodia, 29 July 2018. Cambodia's sixth national assembly elections are held on 29 July.  EPA-EFE/MAK REMISSA
Hun Sen er einn þaulsætnasti þjóðarleiðtogi heims og hefur verið forsætisráðherra Kambódíu síðan 1985. Hér sýnir hann kjörseðilinn á kjörstað í morgun. Kona hans, Bun Rany, er með honum á myndinni.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Kjörstaðir voru opnaðir í Kambódíu á miðnætti að íslenskum tíma, sjö að morgni dags eystra. Óhætt er að segja að kosningarnar séu umdeildar og hafa þær verið kallaðar málamyndakosningar, innan Kambódíu jafnt sem utan, þar sem eini raunverulegi stjórnarandstöðuflokkurinn hefur verið bannaður og leystur upp. Hun Sen, leiðtogi Þjóðarflokks Kambódíu og forsætisráðherra síðan 1985, er því næsta öruggur með að halda embættinu.

Helsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Bjargráðaflokkur Kambódíu, fékk 55 af 123 þingsætum í kosningunum 2013 og sakaði þá Þjóðarflokkinn, sem farið hefur með öll völd í landinu um áratugaskeið, um kosningasvik. Neituðu kjörnir fulltrúar flokksins að taka sæti sín á þinginu til að byrja með, en létu til leiðast að setjast á þing eftir nokkurt samningaþóf við stjórnarflokkinn.

Það var svo í nóvember í fyrra að Bjargráðaflokkurinn var dæmdur ólöglegur af hæstarétti landsins, eftir að ríkisstjórn Huns sakaði hann um að leggja á ráðin um valdarán með aðstoð Bandaríkjamanna. Flokkurinn var í kjölfarið leystur upp, fulltrúar hans sviptir þingsætum sínum og leiðtogi hans ákærður og dæmdur fyrir landráð. Stór hluti flokksforystunnar flúði land í kjölfarið.

Forsætisráðherrann Hun Sen var á árum áður hermaður í her Rauðu Kmeranna. Hann hefur löngum legið undir ámæli fyrir harðstjórn og að berja niður alla raunverulega stjórnarandstöðu með aðstoð hers og lögreglu. Hann vísar þessu á bug og bendir á að 18 flokkar séu í framboði í kosningunum nú, fyrir utan Þjóðarflokkinn. Gagnrýnendur hans benda á móti á að enginn þeirra nái máli sem raunverulegt stjórnmálaafl.

Aðgangur að erlendum fjölmiðlum, einkum netmiðlum, hefur verið takmarkaður í aðdraganda kosninganna og á föstudag greindi Hun Sen þúsundum stuðningsmanna sinna frá því, að flokkur hans hefði „útrýmt svikurum sem reyndu að steypa ríkisstjórninni. Ef við hefðum ekki eytt þeim með stálhnefa, þá ríkti eft til vill stríðsástand í Kambódíu núna,“ sagði forsætisráðherrann vígreifur og sigurviss. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV