Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mála línur svo ferðamenn stöðvi ekki á veginum

24.06.2019 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin
Heilmálun kantlína á þjóðvegum virðist fæla erlenda ferðamenn frá því að stöðva bíla sína í vegkanti þjóðvega. Vegagerðin hefur þegar hafið átak í að mála kantlínur á hringveginum.

Flestir vegfarendur hafa eflaust orðið vitni af því þegar ferðamenn stöðva í vegkanti við fallega staði til þess að taka ljósmyndir og virða fyrir sér landslagið og kennileiti. Þetta getur skapað mikla hættu og komið öðrum ökumönnum í opna skjöldu.

Sóley Jónasdóttir, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, gerði úttekt á þessu vandamáli og birti niðurstöður sínar haustið 2017. Hugmyndin að verkefninu hafi kviknað vegna umræðu innanhúss í Vegagerðinni. Hún segir þennan ósið ferðamanna ekki aðeins skapa skyndilega hættu á vegum því vegaxlir og vegkantar gefa undan og það molnar úr þeim, með auknum viðhaldskostnaði.

Flestir stoppistaðir á Suðurlandi

„Ég fór með starfsmönnum þjónustustöðva Vegagerðarinnar um allt land og við skráðum 102 staði þar sem var svona áberandi hvar ferðamenn voru að stoppa, skyndilega og kannski óvænt í vegkanti,“ segir Sóley. „En þó þetta séu kannski 102 staðir þá eru þetta oft vegkaflar. Kannski vegkafli þar sem menn eru að stoppa ítrekað og víða en út af sama útsýninu kannski.“

Staðirnir sem kortlagðir voru eru flestir á Suðurlandi, enda er straumur ferðamanna langmestur þar sé litið til landsins alls. Það vakti athygli Sóleyjar að ferðamenn voru fljótir að koma sér af stað aftur ef hún og starfsmenn Vegagerðarinnar stöðvuðu skammt frá á merktum bíl Vegagerðarinnar. Annað hafi verið uppi á teningnum ef þau voru á ómerktum bílum.

Þurfa fleiri áningarstaði

Sóley segir að fjölga þurfi áningarstöðum við þjóðvegi til þess að koma í veg fyrir að ferðamenn stöðvi bifreiðar í vegkanti. Ekkert eyrnamerkt fjármagn sé hins vegar til áningarstaðagerðar hjá Vegagerðinni.

„Það var brugðið á það ráð núna að heilmála kantlínur því þær voru alltaf brotnar. Og víða erlendis þá þýðir það að það megi stoppa,“ segir Sóley og bætir við að hún heyri það hjá starfsmönnum þjónustustöðva Vegagerðarinnar að ástandið hafi batnað eftir að línurnar voru heilmálaðar.

Vegakerfið hafi hins vegar ekki náð að taka við auknum fjölda ferðamanna og aukinni útleigu bílaleigubíla síðustu ár. „Þörfin er allt öðruvísi en hún var. Þessir áningarstaðir voru bara fínir fyrir þessa Íslendinga sem voru að ferðast um landið og stoppa og svona,“ segir Sóley.