Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mál sem reyndi mjög á mörk tjáningarfrelsis

Mynd:  / 

Mál sem reyndi mjög á mörk tjáningarfrelsis

14.02.2019 - 17:29

Höfundar

Í dag, 14. febrúar, eru 30 ár frá því að æðstiklerkur Írans, Ayatollah Khomeini, gaf út fatwa, trúarlega tilskipun sem hvatti til þess að bresk-indverski rithöfundurinn Salman Rushdie yrði tekinn af lífi, auk þess sem 1 milljón dollara voru sett til höfuðs höfundinum.

Dauðasök Rushdies var guðlast, vanvirðing við spámanninn Múhameð, í skáldverkinu Söngvar Satans sem kom út nokkrum mánuðum áður, í september 1988. 

Í Fatwa, nýjum þáttum sem er útvarpað á rás 4 breska ríkisútvarpsins BBC, er saga málsins rakin í þaula. Undanfarna tíu daga hafa daglega hljómað 15 mínútna útvarpsþættir sem rekja hina ýmsu þræði málsins. Þættirnir segja frá lífi Rushdie í felum og óhugnalegt ofbeldið sem hinir ýmsu aðilar urðu fyrir vegna tengsla sinna við útgáfu bókarinnar, en meginmarkið þáttanna er þó að skoða málið sem ákveðin vatnaskil í sambúð innflytjenda frá hinum íslamska heimi og vestræns samfélags. Þetta var fyrsta málið þar sem reyndi virkilega á spurningar um mörk tjáningarfrelsisins gagnvart íslam.

epa04072136 (FILE) A file picture dated 01 April 2009 shows British-Indian novelist Salman Rushdie as he presents his novel 'The Enchantress of Florence'in Barcelona, northeastern Spain, 01 April 2009. Former Iranian religious leader Ayatollah
 Mynd: EPA - EPA FILE
Salman Rushdie.

Í þáttunum kemur fram að langt því frá allir vestrænir múslimar hafi verið fylgjandi dauðadómnum yfir Salman Rushdie. Í Bretlandi börðust hófsamari múslimar fyrst og fremst fyrir því að ná fram breytingum á bresku guðlastslögunum, svo þau næðu ekki aðeins yfir kristni. Hins vegar fengu róttækustu múslimaklerkarnir að skilgreina umræðuna. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn veittu þeim áheyrn og leyfðu þeim á vissan hátt að verða talsmenn allra múslima. Þeir veigruðu sér ekki við að ala á sundrungu milli múslima og hinna trúlausu Vesturlandabúa.

Mynd með færslu
 Mynd:
Söngvar satans.

Ef  greining þáttanna er rétt má segja að Rushdie-málinu sé hvergi nærri lokið. Það var einn af upphafspunktum hinnar nýju kynþáttahyggju og bylgju þjóðernispopúlisma sem enn ríður yfir Evrópu. Og það ýtti íslömskum innflytjendum í Evrópu lengra út á jaðarinn þar sem þeir urðu einangraðri, bókstafstrúaðri og ofbeldisfyllri.

Og málinu er ekki heldur lokið vegna þess að dauðadómurinn, fatwa, er enn í fullu gildi. Þó að íranska ríkið hafi gefið út þá yfirlýsingu að það muni hvorki hvetja né letja menn til að myrða Rushdie, geta þau ekki fellt úrskurðinn úr gildi. Fatwa er trúarlegur úrskurður æðsta trúarleiðtoga shía-múslima, einskonar íslamskur páfaúrskúrður. Þó að Salman Rushdie lifi ekki lengur í felum þá er ljóst að ógnin frá ofbeldisfullum heittrúarmönnum hverfi seint.

Fjallað var um málið í Víðsjá á Rás 1.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ákærðir fyrir tilræði gegn bókaútgefanda

Leiklist

Sagði sig frá Söngvum Satans

Bókmenntir

Útgáfa Söngva Satans á Íslandi

Bókmenntir

Tjáningarfrelsi, já, en það má ekki móðga