Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mál Kaupþingsmanna vanrannsakað og vísað frá

11.09.2018 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Fréttastofa - RÚV
Fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í dag frá dómi svokölluðu CLN-máli þriggja fyrrverandi yfirmanna Kaupþings. Dómurinn segir að saksóknari hafi ekki rannsakað málið nægilega vel þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi gert kröfu þar um og því sé óhjákvæmilegt að vísa því frá.

Málið hefur áður komið til kasta héraðsdóms. Í það skipti voru þremenningarnir, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, sýknaðir. Hæstiréttur ógilti þann dóm og lagði fyrir saksóknara að rannsaka tiltekinn þátt málsins betur: tugmilljarða samkomulag sem Deutsche Bank hafði gert við Kaupþing ehf. og tvö eignarhaldsfélög og var talið skipta höfuðmáli við úrlausn sakamálsins.

Málið í óbreyttum búningi og ótækt til meðferðar

Björn Þorvaldsson saksóknari lagði afrakstur rannsóknar sinnar fram fyrir dómi í maí. Verjendur þremenninganna kröfðust þess að málinu yrði vísað frá enda væri rannsóknin ófullnægjandi og Björn hefði því ekki orðið við fyrirmælum Hæstaréttar um að rannsaka málið.

Undir þetta tekur héraðsdómur og bendir á að við rannsóknina hafi ekki verið leitað til Deutsche Bank og ekki heldur til skiptastjóra eignarhaldsfélaganna tveggja. Aðeins hafi verið leitað til Kaupþings ehf. og skýrsla tekin af lögmanni sem hafði unnið fyrir Deutsche bank. „Hann kvað bankann hafa verið að bregðast við dómkröfum um riftun og skaðabætur. Síðar í yfirheyrslunni neitaði hann því hins vegar að greiðslurnar frá bankanum hefðu verið skaðabætur án þess að spurt væri nánar út í þetta ósamræmi,“ segir í niðurstöðu Héraðsdóms.

„Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki rannsakað sem skyldi þau atriði er Hæstiréttur taldi að rannsaka þyrfti. Málið er því í sama búningi fyrir dóminum og það var eftir ómerkingardóminn. Af þessu leiðir að það er ekki tækt til efnismeðferðar og er óhjákvæmilegt að vísa því frá dómi,“ segir í niðurstöðunni.

Heyrðu af samkomulaginu í fréttum RÚV

Í CLN-málinu voru Hreiðar Már, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik með því að lána jafnvirði 72 milljarða króna út úr Kaupþingi í flókin viðskipti með svonefnd lánshæfistengd skuldabréf (e. Credit Linked Notes). Magnús Guðmundsson, sem var forstjóri bankans í Lúxemborg, var ákærður fyrir hlutdeild í brotunum.

Í ákæru var því haldið fram að öll fjárhæðin hefði tapast, en með samkomulagi Deutsche Bank frá í fyrravetur, sem nam jafnvirði um 51 milljarðs, varð ljóst að svo var ekki – með því endurheimtist stór hluti fjárins. Samkomulagið var gert í desember 2016, um svipað leyti og aðalmeðferð málsins fór fram í héraði.

Hvorki Kaupþingsmenn né ákæruvaldið vissu af samkomulagi Deutsche Bank við Kaupþing og félögin tvö, Chesterfield United og Partridge Management Group, fyrr en fréttastofa RÚV greindi frá því í fyrravor. Í kjölfarið kröfðust Kaupþingsmenn þess fyrir Hæstarétti að málinu yrði vísað frá. Í málflutningi í Hæstarétti, sem fréttastofa fjallaði ítarlega um, kom fram að mikil leynd hvíldi yfir samkomulaginu, efni þess og aðdraganda.