Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mál Júlíusar Vífils þingfest í dag

06.09.2018 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Mál Júlíusar Vífils, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem ákærður var fyrir peningaþvætti fyrr í sumar, verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Honum er í ákærunni gefið að sök að hafa þvættað 49 til 57 milljónir króna, sem er sagt vera ávinningur af fyrndum skattalagabrotum hans fyrir meira en áratug. Júlíus hefur viðurkennt að hafa skotið tekjum undan skatti. Héraðssaksóknari segir þær tekjur hafa verið á bilinu 131 til 146 milljónir króna. Brotin varða allt að sex ára fangelsi. Júlíus Vífill er fyrsti Íslendingurinn sem getið var um í Panamaskjölunum sem sætir ákæru.

Júlíus tjáði sig á sínum tíma um ákæruna á Facebook. Þar sagði hann ákæruna koma sér á óvart og að engar lagalegar forsendur væru fyrir henni.