Mál DNB og Samherja mikið hneyksli í Noregi

17.11.2019 - 19:09
sigrid kædboe jacobsen tax justice network noregi skattasérfræðingur noregi
 Mynd: Tax Justice Network
Samherjamálið er svo umfangsmikið að opinberrar rannsóknar er þörf, segir norskur skattasérfræðingur. Þá veki málið upp spurningar um öryggi norska bankakerfisins þegar kemur að peningaþvætti.

Sigrid Klæboe Jacobsen er stjórnandi Tax Justice Network í Noregi, samtaka sem berjast gegn skattaundanskotum og peningaþvætti. Hún segir Samherjamálið hafa vakið upp margar spurningar þar í landi. „Það er svo umfangsmikið og fjárhæðirnar eru svo miklar að þetta er mikið hneykslismál í Noregi.“

Ytri rannsókna þörf

Hún segir þetta í fyrsta sinn sem norskur banki sé tengdur peningaþvætti. Stjórn DNB fyrirskipaði fyrir helgi innanhússrannsókn á Samherjamálinu, en Jacobsen segist hafa takmarkaða trú á slíku, þar sem þannig rannsóknir endi oftast með því að lágt settu starfsfólki er kennt um, en stjórnendur sleppa.

„Við þurfum einnig að láta gera ytri rannsóknir, kafa mjög djúpt í málin og sækja þá til saka sem sækja þarf til saka. Það er afar mikilvægt að við einblínum nú á þessa banka og hlutverk þeirra í því að greiða fyrir þessum geysiháu upphæðum sem virðast tilkomnar vegna spillingar. Við höfum séð svo mörg peningaþvættismál tengd bönkum á Norðurlöndum upp á síðkastið að það hlýtur eitthvað mikið að vera að.“

Undir grímunni er að finna spillingu

Jacobsen vonast til að stjórnmálamenn láti sig málið varða, því vandinn virðist kerfislægur. Hún hefur rannsakað sérstaklega hvernig stórfyrirtæki hafa notfært sér veika innviði Afríku og flutt þaðan fjármagn, meðal annars í gegnum flókið net aflandsfélaga. „Þetta tiltekna mál passar sérlega vel inn í þessa mynd, þetta mikla fjárstreymi sem beint er í svona farveg á útsmoginn og frumlegan hátt, til að dulbúa það sem í raun og veru á sér stað. Undir þessari grímu er að finna spillingu og alls konar vafasöm viðskipti.“

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi