Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Mál Baldurs til Mannréttindadómstóls

04.06.2012 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, hefur verið kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Líklegt er að það muni taka dómstólinn um ár að ákveða hvort málið verði tekið til meðferðar.

Hæstiréttur staðfesti í febrúar tveggja ára fangelsisdóm yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, fyrir innherjasvik. Sakfellt var fyrir fimm atriði sem töldust innherjaupplýsingar þegar Baldur seldi bréf sín í Landsbankanum skömmu fyrir fall bankans. Í kjölfar dómsins fól Baldur lögmönnum sínum að senda kæru vegna málsmeðferðarinnar til Mannréttindadómstóls Evrópu. Gerðu þeir það á fimmtudaginn í síðustu viku.

Baldur telur að með dóminum hafi verið brotið á honum í veigamiklum atriðum í skilningi ákvæða dómstólsins. Til dæmis hafi málið verið endurupptekið eftir að Fjármálaeftirlitið tilkynnti Baldri að rannsókn hafi verið hætt, án þess að heimild hafi verið til þess. Þá hafi réttur Baldurs til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt skilgreiningu dómstólsins ekki verið virtur.

Mannréttindadómstóllinn tekur málið nú til athugunar, og ákveður hvort kæran sé meðferðarhæf. Langflestum kærum sem berast dómstólnum er vísað frá og því getur reynst erfitt að koma málum áfram. Líklegt má telja að ákvörðun um meðferðarhæfi kærunnar liggi ekki fyrir fyrr en um mitt næsta ár, þar sem gríðarlegur fjöldi mála er hjá dómstólnum.