Kælan Mikla hefur vaxið jafnt og þétt í gegnum árin enda slípa þær stöllur steininn frá morgni til kvölds (og fram á nótt) en sveitina skipa þær Sólveig Matthildur, Margrét Rósa og Laufey Soffía. Skuggabylgjan svokallaða („darkwave“) er kirfilegur grunnur að tónlist sveitarinnar, en hún er hjúpuð drungalegum, gotarokkslegum blæ með sterkri skírskotun til upphafs níunda áratugarins, og á köflum eins og eitt langt tilbrigði við Faith-plötu The Cure. Fyrri verk Kælunnar hafa verið brokkgeng, lög sannarlega misspennandi og oft æði ófrumleg. Eitt og annað sem þarfnaðaðist fínpússningar, nokkuð sem kemur venjulega með reynslu.
Nótt eftir nótt er engan veginn stílbrot frá því sem verið hefur, það er haldið áfram með sama kúrs en svo gott sem allt hérna er betra, fumlausara og straumlínulagaðra en áður. Lög eru betri, þéttari einhvern veginn, og rúlla áreynslulaust áfram. Hugsað er fyrir flæðinu á milli versa og viðlaga og stelpurnar eru vakandi fyrir hvernig hægt er að nýta hljóðáhrif; hvort heldur sem er í inngangi laga eða innan um hljóðfæraganginn. Spilamennskan er líka orðin betri og gripurinn allur hinn stöndugasti. Ég heyri í The Cure, Siouxsie and the Banshees, Rammstein, NIN og jafnvel Depeche Mode, og þetta er einfaldlega meira „fullorðins“ en hefur verið. Eðlilega.