Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Makrílvertíðin fer vel af stað

29.07.2019 - 18:04
Mynd með færslu
Víkingur AK landar makríl á Vopanfirði Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Um tuttugu og fimm þúsund tonn af makríl eru komin á land á þeim tæplega fjórum vikum sem liðnar eru af vertíðinni. Makríllinn heldur sig nær landi en á síðustu vertíð og yfirmaður landvinnslu hjá Eskju segir útlit fyrir að þetta geti orðið góð vertíð.

Makrílveiðar hófust af krafti um miðjan mánuðinn, en fyrstu skip hófu veiðar fljótlega upp úr mánaðamótum. Sem stendur eru flest skipin að veiðum undan Suðausturlandi, en fjögur skip eru rétt suðvestur af Vestmannaeyjum.

Betra hráefni en á vertíðinni í fyrra

Benedikt Jóhannsson, yfirmaður landvinnslu hjá Eskju á Eskifirði, segir þá hafa fengið fyrsta makrílfarminn til vinnslu 15. júlí og vertíðin hafi gengið mjög vel. „Veiðarnar hafa gengið mjög vel og makrílinn hefur verið mikið betri en í fyrra. Hann hefur verið nær landi og verið styttra að ná í hann heldur en var í fyrra og einhvernveginn hefur sjálfur makríllinn verið sterkari og betri.“

Meira af makríl við landið núna

Og hann segir meira af makríl við landið núna en í upphafi vertíðar í fyrra. „Já hann er auðvitað nær landi núna og hefur ekki verið á hraðri leið út í Smugu eins og hann virtist gera í fyrra. Þannig að það hefur verið mjög gott að eiga við hann.“

„Yndislegt að fá svona gott start“

Eskja fór illa út úr loðnubrestinum fyrr á árinu, eins og flest fyrirtæki sem treysta á uppsjávarfisk. Benedikt segir því mjög mikilvægt að fá núna þetta kröftuga makrílvertíð. „Já, það er bara alveg yndislegt að fá svona gott starf aftur. Ég held að þetta geti orðið mjög góð vertíð.“