Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Makríllinn er kominn

16.07.2019 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: www.svn.is
Makríll sást við Keflavík fyrir helgi og er útlitið svipað nú og síðustu ár. Makrílveiðar eru hafnar við Vestmannaeyjar og hafa þær gengið ágætlega.

Morgunblaðið greindi frá. Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun, segir að makríll hafi fundist suðvestan við Ísland. Ekki sé óvenjulegt þó lítið hafi sést af makríl norðan við landið. 

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson tekur nú þátt í árlegum fjölþjóðlegum sumaruppsjávarvistkerfisleiðangri Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Auk þess taka þátt skip frá Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og Noregi. Eitt meginverkefni leiðangursins í ár er að líta eftir og fitumæla makríl. Hægt er að fylgjast með leiðangrinum á vef Hafrannsóknastofnunar.  

Ástand sjávar suður af landinu fer batnandi, samkvæmt niðurstöðum vorleiðangurs Hafrannsóknastofnunar. Selta sjávar á þessum slóðum sé enn töluvert undir meðallagi líkt og verið hefur undanfarin ár. Átumagn í yfirborðslögum við landið mældist nálægt langtímameðaltali. Átumagn var undir meðallagi á vestur- og austurmiðum, en um eða yfir meðallagi á norður- og suðurmiðum. Átan er fóður fyrir uppsjávarfiska og því jákvætt að næga átu sé að finna í sjónum. 

tryggvidg's picture
Tryggvi Dór Gíslason