Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Makrílfrumvarp ráðherra „stórslys“

30.04.2015 - 22:49
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/Ramon FVelasqu
Talsmaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda segir nýtt frumvarp sjávarútvegsráðherra um makrílveiðar vera stórslys. Ekkert tillit sé tekið til þeirra sem skapi verðmætin. Verið sé að koma á varanlegum eignarrétti hjá örfáum þar sem heimildum sé úthlutað til sex ára í senn.

 

Í frumvarpinu er lögð til tímabundin úthlutun aflahlutdeilda í makríl. Úthlutunin er til sex ára, en framlengist síðan árlega um eitt ár þar til ákvæði frumvarpsins um fyrirkomulag hennar er breytt eða nýtt ákvæði sett í lög sem mælir fyrir um annað fyrirkomulag.

Þetta frumvarp þýðir því að næsta ríkisstjórn getur ekki breytt aflaúthlutunum í makríl og komið þeim í framkvæmd jafnvel þótt hún sitji heilt kjörtímabíl. Til þess þarf ríkisstjórn sem vinnur tvennar kosningar í röð.

Á vef ráðuneytisins í dag segir að þetta sé gert til þess að stuðla að fyrirsjáanleika í veiðunum. Hann sé mikilvægur með tilliti til fjárfestinga, markaða og veiðitíma. Ólafur Arnarsson, talsmaður SFÚ gefur lítið fyrir þau rök. „Það er í rauninni verið að koma á varanlegum eignarrétti á makrílkvótann hjá þessum örfáu sem að fá úthlutað,“ segir Ólafur. „Þetta frumvarp er gríðarleg vonbrigði og okkur liggur við að kalla það stórslys. Þarna er ekkert tillit tekið til þess að verðmætasköpunin í tengslum við makrílveiðarnar er að stærstum hluta í kring um manneldishlutann þannig að sá makrill sem að fer til manneldis hann er verðmætastur og þeir sem að hafa tekið áhættuna og keypt makríl og unnið, fundið fyrir hann markaði og selt það eru aðallega mínir menn hjá SFÚ, það er ekkert tillit tekið til þess í þessu frumvarpi.“

Ólafur segir að ráðherrann sé að þjóna stórútgerðinni í landinu því ekkert tillit sé tekið til strandveiða og smábáta. „Það á að leyfa frjálsar veiðar þessara aðila. Þetta eru það smáir aðilar að þeir geta ekki veitt neitt magn sem að verður til þess að það ógni stofninum á nokkurn hátt. Þannig að við teljum að sjávaútvegsráðherra eigi bara að kippa þessu frumvarpi til baka og fara heim og hugsa þetta uppá nýtt og tala við þá menn sem að eru að skapa verðmæti í þessari grein.

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra gat ekki veitt fréttastofu viðtal í dag vegna málsins.