Magnús Þorkell um Trump: „Áhrifin skelfileg“

31.01.2017 - 16:00
Banni við komu fólks frá sjö ríkjum til Bandaríkjanna mótmælt á alþjóðaflugvellinum í Atlanta, Bandaríkjunum. - Mynd: EPA / EPA
Ákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að banna ríkisborgurum sjö landa að koma til Bandaríkjanna, gæti orðið vatn á myllu öfgamanna, að mati Magnúsar Þorkels Bernharðssonar, prófessors í sögu Miðausturlanda við Williams-háskólann. Hann segir að áhrifin af ákvörðun Trumps séu skelfileg, á mörgum ólíkum sviðum. Hún muni auka á tortryggni og spennu.

Áhrifin eru skelfileg og á svo mörgum mismunandi stigum. Það er bæði á þessu mannlega stigi og svo hvað varðar almenn samskipti þessa svæðis - milli Miðausturlanda og Bandaríkjanna. Þetta hefur alveg skelfileg áhrif á viðskiptalífið. Og síðan á þetta ekki eftir að auka þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Og svo að lokum á þetta bara eftir að efla baráttu róttækra íslamistasamtaka sem eru að mála heiminn svarthvítum litum.

Segir Magnús Þorkell. Fjölmiðlar í Miðausturlöndum séu nú að reyna að átta sig á því hvort bannið sé upphafið að allsherjarbanni við því að múslimar komi til Bandaríkjanna. Aðgerðin auki enn á tortryggni gagnvart Bandaríkjunum og jafnvel gagnvart Vesturlöndum yfir höfuð.

Guðmundur Pálsson ræddi við Magnús Þorkel í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild hér að ofan.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi