Mættu í dómsal í fylgd lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sakborningar í umfangsmiklu amfetamínmáli tóku ekki afstöðu til sakargifta við fyrirtöku málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Verjendur sakborninga krefjast þess að fá í hendur afrit af hlerunum lögreglu en ákæruvaldið vill ekki verða við því.

Sex eru ákærðir í málinu. Þeir Einar Jökull Einarsson og Alvar Óskarsson eru ásamt þriðja manni ákærðir fyrir framleiðslu á rúmlega 8 kílóum af amfetamíni í sumarbústað í Borgarfirði. Þeir eru einnig ákærðir fyrir umfangsmikla kannabisframleiðslu í Þykkvabæ. Hin þrjú ákærðu, tveir karlmenn og ein kona, eru ákærð fyrir aðild að kannabisframleiðslunni.

Þremenningarnir hafa verið í varðhaldi síðan málið komst upp í byrjun sumars. Lögregla fylgdi þeim í dómssal, þeir voru í járnum og huldu andlit sín.

Verjendur hinna ákærðu fóru fram á það við dómi að fá aðgang að dagbókarfærslum lögreglu, afrit af hlerunum og öll önnur gögn er málið varða. Því hafnaði saksóknari í málinu. Dagbókarfærslurnar væru vinnugögn lögreglu og þar kæmu meðal annars fram upplýsingar um starfsaðferðir lögreglu sem ættu að fara leynt. Á sömu forsendum var framlagningu afrita af hlerunum lögreglu hafnað en saksóknari benti á að skýrslur upp úr hlerunum væru hluti af gögnum málsins.

Verjendur mótmæltu þessu harðlega og sagðist munu berjast fyrir þessum gögnum. Þangað til gögnin kæmu fram gætu hinir ákærðu ekki tekið afstöðu til sakargifta.

Þremenningarnir eru einnig grunaður um umfangsmikið peningaþvætti en það mál er enn í rannsókn hjá lögreglu. Fóru verjendur fram á að annað hvort yrði ákært í málinu eða það fellt niður, en saksóknari sagði málið ekki á forræði ákæruvaldsins.

Ákveðið var að aðalmeðferð í málinu fari fram dagana 22. og 23. október.  

Hin þrjú sem voru ákærð í málinu játuðu öll sök og voru mál þeirra og hinna þriggja aðskilin. Fór saksóknari fram á 12 mánaða fangelsisdóm yfir þeim í morgun.

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi