Mældu hrygningarloðnu norðvestur af landinu

23.01.2017 - 13:32
Mynd með færslu
Leitarslóð skipanna í rannsóknarleiðangrinum Mynd: Hafrannsóknarstofnun
Hrygningarloðnu varð vart undan vestan- og norðanverðu landinu í vikulöngum rannsóknarleiðangri sem lauk um helgina. Framhald loðnuveiða ræðst af niðurstöðum úr þessum leiðangri.

Rannsóknarskipin Árni Friðriksson, Bjarni Sæmundsson og uppsjávarskipið Polar Amaroq tóku þátt í leiðangrinum, sem farinn var í þeim tilgangi að mæla hrygningarstofn loðnu.

Sáu loðnu norðvestur af landinu

Rannsóknarskipin fóru frá Grænlandssundi og Vikurál, austur með Vestfjörðum og Norðurlandi að Kolbeinseyjarhrygg. Polar Amaroq leitaði frá Austfjörðum, úti fyrir Langanesi og að Kolbeinseyjarhrygg úr austri. „Þá sá Polar Amaroq lítið sem ekkert austan Kolbeinseyjarhryggjar, en rannsóknarskipin voru að sjá loðnu í landgrunnshallanum út af Kögurgrunni og Strandagrunni. Því var í seinni umferðinni ákveðið að fara með öll þrjú skipin þangað og mæla það svæði ítarlega,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri.

Of snemmt að segja til um hve mikið mældist

Hann segir að þar hafi tekist að mæla hrygningarloðnu, en hafís hafi þó hindrað mælingar í Grænlandssundi. „Við erum núna að vinna úr gögnunum og erum að taka saman gögnin úr þessum þremur skipum og ég get ekkert sagt til um magnið eins og er,“ segir Birkir.

Ræðst á næstu dögum hvort gefinn verður út kvóti

Enginn upphafskvóti hefur enn verið gefinn út fyrir loðnuveiðar í vetur. Þessi rannsóknarleiðangur er afar mikilvægur en Birkir segir að niðurstaðan úr honum ráði því hvort einhver loðnuveiði verður ráðlögð. „Það er bara einhverntíma núna á næstu dögum.“

Færri skip vegna sjómannaverkfalls

Eins og fyrr segir tóku þrjú skip þátt í þessum leiðangri. Til stóð að fleiri fiskiskip tækju þátt en vegna sjómannaverkfalls var það ekki hægt. Birkir segir að betra hefði verið að hafa skipin fleiri. „Fyrir sjómannaverkfall vorum við með gott plan þar sem hugmyndin var að hafa fleiri skip með okkur. Það hefði kjárlega hjálpað og gert þetta auðveldara og betra.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi