Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Maður veit aldrei hvað báturinn endist lengi þarna“

14.11.2019 - 08:23
Mynd: Landhelgisgæslan / Facebook
Fjórum var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar í gærkvöld þegar tuttugu og eins tonns fiskibátur strandaði við Gölt í utanverðum Súgandafirði í gærkvöld. „Þeir voru í töluverðri hættu. Maður veit aldrei hvað báturinn endist lengi þarna. Það braut á honum allan tímann,“ segir Auðunn Friðrik Kristinsson, verkefnastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

Voru tíu mínútur að hífa skipverja í þyrluna

Þyrlan var komin á slysstað um miðnætti. Báturinn var skorðaður milli kletta og það tók sigmenn Landhelgisgæslunnar aðeins um tíu mínútur að bjarga skipverjum. „Ég hef nú ekki heyrt af þeim eftir að þeir komu í land. Meðan á þessu stóð voru þeir í mjög góðu standi, fóru í björgunargalla og héldu kyrru fyrir í bátnum enda ekkert annað að gera. Þeir báru sig vel,“ segir Auðunn jafnframt. Farið var með skipbrotsmennina til Ísafjarðar.  

Hægur vindur var á svæðinu, en þónokkur alda. „Það gekk nokkuð vel að bjarga þeim þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það var brim og hreyfing á bátnum,“ segir hann.

Brim gerði björgunarliðum erfitt fyrir

Auðunn segir að það sé ómögulegt að segja hvað gerðist. Skipið var á innleið, á leið heim úr veiði. Það var ekki hægt að komast að skipinu frá sjó vegna brims. „Það hefði verið möguleiki að ganga frá utanverðum Súgandafirði en það voru ekki góðar aðstæður til þess.“

Varðskipið Týr er á leið á strandstað. „Það verður komið um tíuleytið. Þá kíkjum við á aðstæður í samvinnu við eigendur og tryggingafélag. Hvort það sé hægt að ná bátnum út eða hvernig aðstæður verða. Það eru ágætis aðstæður í dag. En svo fer að hvessa upp úr því. Við sjáum hvað dagurinn ber í skauti sér.“