Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

 „Maður missir stundum andlitið“

07.07.2018 - 13:17
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Alþingi er býsna stöðnuð stofnun með úrelta starfshætti, að áliti Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, sem lýsa mætti sem kerfishrelli, svo einbeittur er hann í sókn eftir skýringum á framkvæmd laga og starfsháttum, bæði á Alþingi og í stjórnkerfinu. Þykir mörgum nóg um. „Fólk þekkir þetta leikrit sem ræðustóllinn er. Það sem fólk segir líka er að góða vinnan fari fram í nefndunum en það er bara bull líka. Því miður.“ Björn Leví Gunnarsson var föstudagsgestur Morgunvaktarinnar.

Píratinn lýsti því hversu mjög vantaði oft upp á skilningi þingmanna á einstökum málum. Þingmenn settu sig ekki nógu vel i inn í mál en afgreiddu þau sjálfvirkt úr ráðuneytunum. Björn Leví segir að besta vinnan fari fram vegna mála sem liggi ljós fyrir og allir geti sameinast um þau. Hann segist hafa verið kallaður teknókrati, sem vilji afhenda sérfræðingum völdin. Það sé misskilningur. „Við erum samkvæmt stjórnarskrá bundnir eigin sannfæringu. Það eru ekki settar aðrar skyldur á okkur, engar menntunarkröfur eða þvíumlíkt. Í raun er ætlast til að við séum þarna inni í raun sem ekki-sérfræðingar. Eina rökrétta krafan sem maður sér að sett er á þingmenn er bara samviskukrafan. Það þýðir að við eigum að hlusta á sérfræðinga. Við eigum líka að hlusta á gagnrýni annarra sérfræðinga.“ Hinsvegar gefst þingmönnum alltof lítill tími til að fara yfir mál, gaumgæfa þau. Dagskrá nefndarfunda liggur fyrir með skömmum fyrirvara og efnið sem lagt er fram hafa nefndarmenn oft ekki séð áður.  „Gestir koma með fundargögnin þegar þeir mæta og dreifa þeim til þingmanna á staðnum. Þeir fá í hendurnar fullt af gögnum sem þeir hafa aldrei séð áður og eiga að spyrja um.“ 

Á Morgunvaktinni ræddi Björn Leví Gunnarsson vítt og breitt um ógagnsæi í stjórnsýslunni, á Alþingi og í stjórnkerfinu, og hversu tregt kerfið er til að veita upplýsingar. Sjálfur spyr hann margra spurninga.  Áhugaverðust var kannski spurningin um óskráðar hefðir og venjur.  „Við lendum rosalega oft í því að eitthvað er gert út af því að það hefur myndast hefð um það. Ég hef meira að segja fengið skriflegt svar um dagpeninga ráðherra, þar sem sagt var að ekki hafi myndast hefð um að gera þetta svona! Maður missir stundum andlitið. Forseti sagði í ræðustól Alþingis að ýmsar reglur og hefðir giltu um störf þingmanna. Þá klóraði ég mér í hausnum. Allt í lagi, en hvaða hefðir og reglur eru það? Við lendum oft í því að vera sagt: Þetta er bara svona af því að það hefur myndast hefð um þetta.  En hvernig á þá að bregðast við þegar maður er að koma nýr inn í þetta? Það einfaldlega má ekki  vísa til einhverrar hefðarreglu um það hvernig afgreiða eigi ákveðna dagskrárbreytingu eða hvað það nú er.“

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður