Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Maður lést eftir líkamsárás í Mosfellsdal

07.06.2017 - 21:12
Mynd með færslu
 Mynd: Alma Ómarsdóttir - RÚV
Maður lést eftir líkamsárás í Mosfellsdal í kvöld. Lögreglan kom á staðinn um kvöldmatarleytið. Sex hafa verið handteknir en lögreglan verst allra fregna. Samkvæmt heimildum fréttastofu tengist málið handrukkun.

Tveir voru handteknir á Vesturlandsvegi, nálægt Úlfarsfelli, nú í kvöld en lögreglan vildi ekki staðfesta að handtökurnar tengdust málinu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa hinir handteknu áður komið við sögu lögreglu.

Árásin átti sér stað við Æsustaði í Mosfellsdal. Íbúi í nágrenninu varð vitni að árásinni en vildi ekki tjá sig um málið í samtali við fréttastofu því lögreglan hefði beðið hann um að gera það ekki.

Fréttin verður uppfærð.

Uppfært kl. 01:13: 
Vísir hefur eftir Grími Grímssyni, yfirlögregluþjóni sem fer með rannsókn málsins, að lagt hafi veirð hald á tvo bíla vegna málsins. Annar þeirra var tekinn af vettvangi glæpsins, en hinn á Vesturlandsvegi. 

Uppfært kl. 22.10:
Lögreglan hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Karlmaður um fertugt hefur verið úrskurðaður látinn á Landspítalanum í Fossvogi í kvöld en þangað var hann fluttur eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás í Mosfellsdal. Lögreglu barst tilkynning um árásina kl. 18.24 og fór fjölmennt lið lögreglu þegar á vettvang. Rannsókn málsins er umfangsmikil, en fimm karlar og ein kona hafa verið handtekin í þágu hennar. Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan stuttu eftir handtöku tveggja á Vesturlandsvegi í kvöld
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkrabíllinn á leið af vettvangi rétt eftir kvöldmatarleytið í kvöld
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir