Maður er alltaf að reyna að verða betri

Mynd: Rúv / Rúv

Maður er alltaf að reyna að verða betri

27.08.2018 - 17:04
„Ef maður hittir meistarann sinn þá verður maður að drepa hann“ sagði Högni Egilsson um það þegar hann hitti söngvarann Win Butler í hljómsveitinni Arcade Fire. Högni ræddi við okkur um æsku sína, Belgíudvölina, Hjaltalín og fleira.

Fyrstu árin ólst Högni upp í Snælandi í Kópavogi áður en hann fluttist til Belgíu þar sem hann stundaði nám í breskum einkaskóla.

Á meðan vinir mínir voru að bryðja rítalín-töflur í Norðurmýrinni og hanga með rónunum á Svarta svaninum, sem var náttúrulega mjög skemmtilegt að gera, þá var ég settur í fínan skóla úti í Brussel.

Högni lærði á fiðlu í um 10 ár sem barn. Honum þótti það ekki skemmtilegt og skipti yfir í gítar á unglingsárum þegar hann fluttist frá Belgíu. Í æsku datt Högna ekki í hug að hann gæti orðið tónlistarmaður. Hann áttaði sig ekki á því fyrr en um tvítugt þegar hann hafði stofnað Hjaltalín. Þegar Högni útskrifaðist úr Menntaskólanum í Hamrahlíð fór hann í Myndlistarskólann í Reykjavík. Eftir ár í myndlistarnáminu settist kennari Högna niður með honum og spurði hvers vegna hann legði ekki tónlistina fyrir sig.

Seinna átti Hjaltalín eftir að syngja sig inn í hug og hjörtu þjóðarinnar. Með fyrstu lögum hljómsveitarinnar var Mamma kveikir kertaljós. Hjaltalín keppti einnig í Söngkeppni framhaldsskólanna 2005 með sama lagi en notaði texta Jóhanns Sigurjónssonar, Sofðu unga ástin mín.

Mynd: rúv / rúv

 

Hjaltalín hefur ekki gefið neitt út síðan 2015 en aldrei að vita nema það komi út nýtt efni fyrir væntanlega stórtónleikar Hjaltalín í Eldborg í febrúar 2019.

Hér að ofan má heyra mánudagsviðtalið við Högna Egilsson.