Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Má ekki móðga erlenda þjóðhöfðingja á Íslandi

18.04.2016 - 23:45
epa05246428 (FILE) A file picture dated 22 February 2012 shows German comedian and television host Jan Boehmermann posing in Berlin, Germany. According to reports, German prosecutors have on 06 April 2016 initiated inquiries on Boehmermann on the
 Mynd: EPA - EPA FILE/DPA
Allt að tveggja ára fangelsi er við því að móðga erlenda þjóðhöfðingja samkvæmt íslenskum hegningarlögum. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, hefur lagt til að þetta lagaákvæði verði fellt brott, meðal annars vegna frétta af málaferlum gegn þýska skemmtikraftinum Jan Böhmermann sem nýverið hæddist að Erdogan Tyrklandsforseta í þýskum sjónvarpsþætti .

Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að flutningsmenn telji fyrri hluta 95. greinarinnar fela í sér óþarfa og óæskilega skerðingu á tjáningarfrelsi. Þessum lagaákvæðum hafi sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar hafi fallið dómar á grunni þeirra.

Flutningsmennirnir rifja þó upp tvo dóma. Í öðrum þeirra var Þórbergur Þórðarson dæmdur fyrir grein sína um Þýskaland og Adolf Hitler árið 1934. Þórbergi var gert að greiða 200 krónur í sekt.

Fram kom í Alþýðublaðinu um dóminn að málið hefði verið höfðað að kröfu þýsku stjórnarinnar. Hún var ósátt við að vera sökuð um að hafa staðið fyrir einhverri „viltustu morðs-og píslaröld sem sagan gæti um.“ Hún taldi það einnig móðgun að Hitler væri í grein Þórbergs kallaður: „sadistinn í kanzlarastólnum þýska.“

Þá var Steinn Steinarr sömleiðis dæmdur fyrir að smána hakakrossfána nasista. Sá dómur féll þó niður með stofnun lýðveldisins. Steinn var í hópi manna á Siglufirði sem skar niður hakakrossfána vararæðismanns Þýskalands. Hann var í héraði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem síðar var mildaður í Hæstarétti í tvo mánuði. 

Þýsk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að leyfa málaferli gegn Böhmermann. Í ljóði, sem flutt var í þýskum sjónvarpsþætti, sakaði grínistinn Erdogan Tyrklandsforseta um að kúga minnihlutahópa og stunda kynlíf með búfénaði.