
Má ekki móðga erlenda þjóðhöfðingja á Íslandi
Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að flutningsmenn telji fyrri hluta 95. greinarinnar fela í sér óþarfa og óæskilega skerðingu á tjáningarfrelsi. Þessum lagaákvæðum hafi sjaldan verið beitt hér á landi og enn sjaldnar hafi fallið dómar á grunni þeirra.
Flutningsmennirnir rifja þó upp tvo dóma. Í öðrum þeirra var Þórbergur Þórðarson dæmdur fyrir grein sína um Þýskaland og Adolf Hitler árið 1934. Þórbergi var gert að greiða 200 krónur í sekt.
Fram kom í Alþýðublaðinu um dóminn að málið hefði verið höfðað að kröfu þýsku stjórnarinnar. Hún var ósátt við að vera sökuð um að hafa staðið fyrir einhverri „viltustu morðs-og píslaröld sem sagan gæti um.“ Hún taldi það einnig móðgun að Hitler væri í grein Þórbergs kallaður: „sadistinn í kanzlarastólnum þýska.“
Þá var Steinn Steinarr sömleiðis dæmdur fyrir að smána hakakrossfána nasista. Sá dómur féll þó niður með stofnun lýðveldisins. Steinn var í hópi manna á Siglufirði sem skar niður hakakrossfána vararæðismanns Þýskalands. Hann var í héraði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi sem síðar var mildaður í Hæstarétti í tvo mánuði.
Þýsk stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að leyfa málaferli gegn Böhmermann. Í ljóði, sem flutt var í þýskum sjónvarpsþætti, sakaði grínistinn Erdogan Tyrklandsforseta um að kúga minnihlutahópa og stunda kynlíf með búfénaði.