Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Má ekki missa banka í hendur vitleysinga“

21.10.2015 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Vinstri grænna, segir ekkert því til fyrirstöðu að ríkið eigi tvo af þremur stærstu bönkum landsins tímabundið. Ekki megi missa bankana í hendur vitleysinga.

Steingrímur sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að ríkið ætti hikstarlaust að eiga Landsbankann sem kjölfestubanka.

„ Að mörgu leyti væri það eðlilegt þegar ríkið á svona stóran hlut í bankakerfinu og annan af stóru bönkunum til viðbótar að stokka upp spilin og hagræða í bankakerfinu. Minnka það. Eigum við ekki að nota tækifærið og aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingabankastarfssemi? Nú höfum við góð tök á þessum málum. En þá koma önnur sjónarmið, eins og samkeppnissjónarmiðin. Erum við sátt við að það séu aðeins tveir stórir bankar í landinu o.s.frv.“

Ekkert að því að ríkið eigi tvo banka

Steingrímur bætti við að nú væri tækifæri til að vinna úr þessum málum á yfirvegaðan hátt.  „Við þurfum ekkert að flýta okkur í þeim efnum. Það er ekkert að því að ríkið eigi þá tvo banka tímabundið. Við eigum alls ekki að fara í einhvern brunaútsöluæðibunugang á nýjan leik. Bara alls ekki.“

Vitleysingar eignuðust bankana

„Og síðan megum við ekki missa bankana í hendur á einhverjum vitleysingjum, svo maður tali nú bara mannamál.  Bankarnir fóru ekki á hausinn á meðan ríkið átti þá. Við skulum ekki gleyma því. Það var ekkert að rekstri þeirra á meðan að ríkið átti þá. Það voru einkaaðilar sem settu þá á hausinn. Menn vissu ekkert hvað þeir voru að gera og fóru með þetta til fjandans. Það verður einhvern tíma að mega að tala á íslensku um þessa hluti.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV