Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Má ekki banna lostafullt áfengi

11.12.2012 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd:
ÁTVR má ekki hafna því að selja áfengi vegna þess að umbúðir þyki gildishlaðnar eða ómálefnalegar, því það samræmist ekki tilskipunum Evrópusambandsins um samræmingu laga um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla. Þetta kemur fram í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins

2010 vildi íslenskur innflytjandi koma cider-drykkjum í sölu hjá ÁTVR. Því var hafnað og rökstutt með þeirri skýringu, að drykkurinn væri markaðssettar í stílhreinum og fagurlega skreyttum áldósum,  með listrænum teikningum, þar á meðal litríkum myndskreytingum af kvenmannsleggjum og að því er virðist nöktu holdi. ÁTVR taldi augljóst að með þessu væri verið að vöruna spennandi og ögrandi á nautnalegan hátt og að kynferðisleg skírskotun þeirra blasti við. Léttúðugar myndir með nautnalegum, jafnvel lostafullum undirtón væru á mörkum hins almenna velsæmis.

Samkvæmt reglum ÁTVR mega merkingar einungis innihalda upplýsingar er tengjast vörunni, aðferð við gerð hennar eða eiginleikum. Einnig segir í reglunum að ÁTVR taki ekki við vörum ef texti eða myndmál á umbúðum vörunnar inniheldur, meðal annars, gildishlaðnar eða ómálefnalegar upplýsingar, eða gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, eða brjóti í bága við almennt velsæmi, meðal annars með skírskotun til ofbeldis, trúarbragða, kláms, ólöglegra fíkniefna, stjórnmálaskoðana, mismununar, refsiverðrar háttsemi o.s.frv. 

Að hafna sölu vöru vegna umbúða brýtur í bága við tilskipanir ESB, samkvæmt ráðgjöf EFTA-dómstólsins til Héraðsdóms Reykjavíkur og segir í álitinu að tjón sem rekja megi til þessarar ákvörðunar ÁTVR geti leitt til skaðabótaábyrgðar ríkisins telji héraðsdómir brotið nógu alvarlegt. 

________________________________________________

11.12. 14:05 Fréttinni var breytt í kjölfar ábendingar um að álit EFTA-dómstólsins vísaði til þess að skv. reglugerðum ESB lægi skilyrðislaust bann við því að drykkjarvörur, sem innihalda  meira en 1,2% af alkóhóli miðað við rúmmál, væru tengdar heilsufullyrðingum. ÁTVR er því heimilt að neita sölu áfengis þar sem gefið er til kynna að það auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu.