Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Má búast við gosi út árið

31.08.2014 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldfjallafræðingur segir viðbúið að eldsumbrot og jarðhræringar verði viðloðandi norðanverðan Vatnajökul að minnsta kosti út þetta ár.

Jarðvísindamenn hafa líkt eldsumbrotunum í norðanverðum Vatnajökli síðustu daga við Kröfluelda. Kröflueldar hófust árið 1975, með litlu hraungosi við Leirhnjúk þann 20. desember. Í kjölfarið fylgdi mikil hrina jarðskjálfta, með tilheyrandi sprungumyndunum og landsigi sem teygði sig norður í Öxarfjörð. Um þetta má lesa á jarðfræðivefnum. Á næstu níu árum urðu tuttugu svipaðar en misstórar hrinur í eldstöðvakerfi Kröflu. Níu sinnum urðu eldgos í þessum hrinum, flest skammvinn sprungugos.

Vísindamenn segja atburðarásina nú í nágrenni Holuhrauns minna óneitanlega á upphaf jarðhræringa í Kröflu. Jarðskjálftahreyfingar séu sambærilegar sem og færsla skjálftavirkninnar í aðdraganda goss. „Þetta er svona sambærilegt og við sáum hérna í Kröflu. Fyrsta gosið í Kröflu var bara pínkulítið svo stækkuðu gosin eftir því sem á leið á hrinuna,“ segir Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur. „Það má reikna með að þessi atburðarás verði áfram út þetta ár og jafnvel eitthvað fram á næsta, en þær eru nú mismunandi þessar hrinur, eins og síðasta hrina í Öskju hún gekk svona yfir að mestu á 8 - 9 mánuðum. Hrinur í Bárðarbungu, við höfum aldrei upplifað þær á mælingaöld þannig að við vitum ekki hvernig þær ganga fyrir sig. Svo við getum verið að tala um níu mánuði eða tíu ár.“