Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Lýstu vonbrigðum á tilfinningamiklum fundi á Flateyri

20.01.2020 - 20:11
Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að fundur sem haldinn var með íbúum á Flateyri í kvöld hafi verið tilfinningaríkur. Fólk hafi grátið og verið reitt. Um mikilvægan fund hafi verið að ræða.

„Mér fannst ég finna einlæg vonbrigði fólksins yfir því að hafa verið afskipt, ekki verið á það hlustar og öryggi þeirra hafi ekki verið tryggt. Það er sambland af vonbrigðum og kjarki og baráttu. Við ætlum að byggja hérna upp samfélag. Það er alveg gríðarlega þungur undirtónn í þessum vonbrigðum og nauðsyn um öryggi íbúa, atvinnulífið sé tryggt og að við byggjum áfram þetta dásamlega samfélag sem Flateyri er,“ sagði Guðmundur í viðtali við Elsu Maríu Guðlaugs Drífudóttur í kvöldfréttum.

Hann segir spurningar hafi brunnið á íbúum um ofanflóðavarnir, af hverju ekki hafi verið hægt að treysta þeim. Hvar upplýsingar hafi verið og hvar heilbrigðisþjónustan hafi verið.

„Þetta er svo mikilvægur hluti af því að vinna sig út úr svona, skref fyrir skref. Á þessum fundi leyfum við okkur að dvelja aðeins í því sem gerðist, en svo ætlum við að hefja úrvinnsluna og horfa fram á við,“ sagði Guðmundur Gunnarsson.