Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Lýsti hálfum milljarði í þrotabú bankanna

16.03.2016 - 14:13
Mynd með færslu
Anna Sigurlaug Pálsdóttir ásamt eiginmanni sínum, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, á leið á kjörstað 2013 Mynd: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson - Facebook
Wintris Inc, félag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu forsætisráðherra, lýsti kröfum upp á rúman hálfan milljarð í þrotabú Landsbankans, Kaupþings og Glitni. Krafan í Landsbankann nam 174 milljónum en kröfurnar í þrotabú Kaupþings voru þrjár, tvær upp á rúmar 43 milljónir og ein uppá 134 milljónir. Krafan í Glitni var upp á eina milljón svissneskra franka.

Uppfært klukkan 14:21

Anna Sigurlaug greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gærkvöld að fjölskylduarfur hennar væri í erlendu félagi.  Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðamaður forsætisráðherra, staðfesti síðan í samtali við fréttastofu að umrætt félag væri skráð á Bresku jómfrúareyjum en bankareikningur þess væri í fjárstýringu hjá útibúi Credit Suisse á Bretlandi.

Vefmiðillinn Kjarninn upplýsti í dag að hann hefði ítrekað óskað eftir upplýsingum um hvort ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eða fjölskyldu þeirra, ættu eignir erlendis. Þær fyrirspurnir báru ekki árangur.

Fréttastofa greindi frá því í morgun að félagið hefði lýst kröfu upp á 174 milljónir í þrotabú Landsbankans. Nafnið var að finna á kröfuskrá Landsbankans sem DV birti í í nóvember 2009. Jóhann Þór staðfesti enn fremur að félagið hefði lýst kröfu í þrotabú Kaupþings - hann sagðist ekki vita hversu há sú upphæð væri.

Wikileaks birti kröfuhafalista Kaupþings í byrjun árs 2010. Hann er aðgengilegur á vef Visir.is og þar bregður nafni Wintris, félagi Önnu Sigurlaugar, fyrir þrisvar. Tvær kröfur upp á rúmar 43 milljónir og ein upp á 134 milljónir. Ekki er þó vitað hversu mikið fékkst greitt upp í þessar kröfur.

Jóhannes Þór segir í samtali við fréttastofu að krafan í Glitni hafi hljóðað upp á eina milljón svissneskra franka. Á núverandi gengi nemur sú krafa því tæpum 129 milljónum.

Fréttastofa hefur óskað eftir upplýsingum um hversu mikið fékkst greitt upp í þessar kröfur.