Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Lýst sem sálarmorðingjum

02.11.2012 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd:
Kaþólska kirkjan á Íslandi stakk ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum undir stól. Fyrrverandi nemendur lýsa í nýrri rannsóknarskýrslu nauðgunum sem stóðu yfir um margra ára skeið. Stjórnendum skólans er lýst sem sálarmorðingjum.

Skýrsla Rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar á Íslandi er mikill áfellisdómur yfir Landakotsskóla og kaþólsku kirkjunni sem bar ábyrgð á skólastarfinu. Nefndin telur ástæðu til að nafngreina tvo fyrrverandi starfsmenn, séra Georg, sem var skólastjóri Landakotsskóla í tæp 40 ár og Margréti Muller sem starfaði við skólann á sama tímabili.

Þrjátíu fyrrverandi nemendur komu fyrir nefndina. Átta þeirra segjast hafa sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu Georgs og Margrétar. Fyrsta dæmið er frá 1956 og það síðasta frá 1988. Það ofbeldi sem þau eru sökuð um að hafa beitt börnin er allt frá strokum og káfi til þess að þvinga börnin til munnmaka og misþyrma þeim í endaþarm. Sex af þessum nemendum sögðu ofbeldið hafa staðið yfir í langan tíma, allt frá tveimur árum til sjö ára og að það hafi jafnvel átt sér stað tvisvar til þrisvar í viku.

27 af þessum 30 nemendum sögðust ýmist hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi eða orðið vitni að andlegu ofbeldi og báru þeir Georg og Margréti afar slæma sögu. Þá segja 16 af þeim 20 kennurum og starfsmönnum sem komu fyrir nefndina að þeir teldu börn í skólanum hafa sætt andlegu ofbeldi eða höfðu heyrt kvartað yfir því.

Og það var svo sannarlega kvartað yfir ofbeldi, bæði börnin sjálf sem og forráðamenn þeirra. Fram kemur að prestar og allir biskupar kaþólsku kirkjunnar á þessum árum hafi stungið kvörtunum undir stól og jafnvel brennt gögn. Allt ber því að sama brunni; innan kirkjunnar og skólans átti sér stað víðtæk þöggun og ljóst að kaþólska kirkjan vanrækti skyldur sínar gagnvart skjólstæðingum sínum.

„Út frá þessum grundvelli sem við byggjum á, þá brugðust biskupar ekki við ásökunum sem komu fram,“ segir Hjördís Hákonardóttir, formaður nefndarinnar.

Pétur Burcher, biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, vildi ekki veita fréttastofu viðtal í dag en segir í fréttatilkynningu að hann biðjist afsökunar í fullkominni auðmýkt andspænis þeim persónum sem hér eiga hlut að máli.

Rétt er að geta þess að kaþólska kirkjan hefur ekki komið að stjórn Landakotsskóla frá árinu 2005.