Lýsir vonbrigðum með veiðigjaldafrumvarp

25.09.2018 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, lýsir yfir vonbrigðum með frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld. Sumt sé til bóta, en veiðigjöld séu of há.

 

Meðal breytinga sem sjávarútvegsráðherra kynnti í dag er að úrvinnsla veiðigjalda færist yfir til skattayfirvalda og gjaldheimtan nær þeim tíma sem aflinn er veiddur, auk þess sem vinnslan greiði ekki gjaldið. Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir það kost, en heilt yfir hafi hún orðið fyrir vonbrigðum. Hún hefði viljað sjá meira tillit tekið til stöðu greinarinnar um þessar mundir.

„Þar hefðum við auðvitað viljað sjá betri tengingu við afkomuna. Þannig að því leytinu til eru þetta vonbrigði, veiðigjaldið er of hátt og það auðvitað mun leiða til þess að samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs verður ekki eins góð um við gætum haft hana,“ segir Heiðrún Lind. 

Sjávarútvegsráðherra hefur sagt að tilgangur frumvarpsins hafi ekki verð að hækka eða lækka veiðigjöld. Heiðrún Lind vísar í því sambandi til þess sem sagt var á síðasta þingi um að horfa ætti meira til afkomu í greininni. 

Er ekki verið að taka tillit til afkomunnar með því að færa gjaldtökuna nær veiðunum? „Jú, það er að vissu leyti, en það er litið til afkomu áranna 2009 til dagsins í dag, sem hafa auðvitað verið fádæma góð ár í sjávarútvegi, um það er ekki deilt. Þannig að líta bara til eins konar gullaldarára, þegar metið er hver fjárhæðin eiginlega eigi að vera, það kemur ekki heim og saman við prinsippið um að þetta eigi að taka tillit til afkomu.“

En er ekki gjaldtakan þannig að hún er hlutfall þannig að þegar illa árar þá er borgað minna? „Jú, það er þannig, en svo er það spurning hvar stilla menn prósentuna af, hversu stóran skerf af afkomunni ætlar ríkið að taka?“

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi