Lýsir vígi hryðjuverkaleiðtoga á hendur Bandaríkjanna

07.02.2020 - 03:52
epa08198271 US President Donald J. Trump speaks in the East Room of the White House a day after his Senate impeachment trial acquittal in Washington, DC, USA, 06 February 2020. Trump was found not guilty on two articles of impeachment 05 February after a two-week trial.  EPA-EFE/ERIK S. LESSER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, lýsti í gær vígi leiðtoga al-Kaída hryðjuverkasamtakanna á Arabíuskaga á hendur Bandaríkjunum. Bandaríkin „framkvæmdu árangursríka hernaðaraðgerð gegn hryðjuverkum í Jemen, þar sem Qassim al-Rimi, leiðtogi og einn stofnenda al-Kaída á Arabíuskaga var upprættur," segir Trump í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

 

Síðastliðinn sunnudag lýsti al-Kaída á Arabíuskaga á hendur sér skotárás á flotastöð Bandaríkjanna í Flórída í desember, þar sem sádi-arabískur hermaður drap þrjá sjóliða.

Samkvæmt frétt AFP telja bandarísk stjórnvöld al-Kaída á Arabíuskaga hættulegasta arm þessara fjölþjóðlegu hryðjuverkasamtaka, sem hafi náð að blómstra og eflast í þeirri ringulreið og hörmungum sem stríðið í Jemen hefur leitt yfir jemensku þjóðina. Þar fara fremstir í flokki uppreisnarmenn Húta og Sádi-Arabar, sem fara fyrir hernaðarbandalagi gegn Hútum.

„Undir stjórn al-Rimis hefur al-Kaída framið svívirðileg illvirki gegn óbreyttum borgurum í Jemen og freistað þess að fremja og hvetja til fjölmargra árása á Bandaríkin og herafla okkar,“ segir Trump í yfirlýsingu sinni, og klykkir út með því að dauði Rimis færi Bandaríkin „nær því að útrýma þeirri ógn sem þessir hópar eru við þjóðaröryggi okkar.“

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi